Það er nóg pláss fyrir alla

Jóhannes Ellertsson er líklega aldursforsetinn í íslenskri ferðaþjónustu. Hann byrjaði …
Jóhannes Ellertsson er líklega aldursforsetinn í íslenskri ferðaþjónustu. Hann byrjaði að aka rútum um landið tvítugur árið 1959 og starfar nú fyrir Ferðafélag Íslands. mbl.is/RAX

„Það hefur orðið geysileg breyting í Þórsmörk frá því að ég fór fyrst að keyra þangað ungur maður fyrir nærri 50 árum, fjöldinn sem þangað kemur hefur stóraukist og svo hafa aðstæður allar gerbreyst til batnaðar,“ segir Jóhannes Ellertsson sem margir Íslendingar af eldri kynslóðinni kannast við úr rútuferðum um landið.

Hann er 78 ára gamall, hættur rútuakstri en á fullu alla daga í erindum Ferðafélags Íslands inn í óbyggðirnar. „Ég keyri vistir og fleira fyrir Ferðafélagið í sæluhúsin á Sprengisandi, að Fjallabaki, í Landmannalaugum og Þórsmörk,“ segir hann. „Og ef það þarf að dytta að einhverju geri ég það í leiðinni,“ bætir hann við.

Jóhannes hefur einstæða yfirsýn yfir ferðalög um landið því hann byrjaði að aka rútum með ferðafólki árið 1959, þegar hann var aðeins tvítugur. Í mörg ár annaðist hann sérleyfisakstur á Vestfjarðaleið, en sneri sér síðan að hópferðaakstri um land allt og ferðaþjónustu af ýmsu tagi. Hann hefur starfað í þágu Ferðafélagsins frá upphafi og farið ófáar ferðir með fullar rútur af fólki sem vill komast úr ys og þys þéttbýlisins og út í náttúruna með þögn sinni og heillandi landslagi.

Þórsmörk höfðar sterkar til Jóhannesar en aðrir staðir. „Hún var auðnin ein þegar ég byrjaði,“ segir Jóhannes. „Nú er þar orðið gróðursælt víða. Ferðafélagið hefur sáð í börð, lagt göngustíga og byggt hús, svo þarna er miklu vistlegra og þægilegra að vera en áður. Menn geta meira að segja rölt þarna um og farið svo á barinn og fengið sér í glas þegar þeir koma til baka,“ segir hann. Breytingarnar eru ekki bara af mannavöldum, jökulhlaup undanfarna áratugi hafa breytt ýmsu í ásýnd staðarins. „Ég man eftir jökullóni sem þarna var sem er orðið fullt af möl núna. Ég tók skauta stundum með, líklega sá eini sem þarna hefur skautað.“

Þegar Jóhannes byrjaði að keyra inn í Þórsmörk söfnuðust farþegar saman á Austurvelli í eina eða tvær rútur. Svo var stundum ekið fyrir stofnanir og fyrirtæki og voru þá stundum 200 manns í hverri ferð. „Þannig ferðalög eru hætt,“ segir Jóhannes, en nú komi þangað mikill fjöldi útlendinga auk Íslendinga. Hann hefur hvorki áhyggjur af fjöldanum né umgengninni. Og hann telur umgengnina góða, en segir að hún hafi breyst mikið. Fyrr á tíð hafi fólk komið með nesti sitt í glerílátum og farið með þau heim að ferð lokinni. Nú noti menn plastpoka og skilji þá eftir með matarleifum. Það þurfi því að aka miklu magni af sorpi á brott.

Jóhannes segir að álag á landið sé viðunandi því svæðið sé stórt. „Það er nóg pláss fyrir alla,“ segir hann. Aftur á móti er hann ósáttur við ástand veganna á hálendinu. „Þegar ég var fyrst að keyra í Þórsmörk á árunum á milli 1960 og 1970 var ástand vegarins miklu betra en núna,“ segir hann. „Þá var mold í honum, en nú er bara grjót. Eins er þetta á Sprengisandi. Maður sér varla Íslendinga aka þar, bara útlendinga, fólk vill ekki skemma bílana sína.“ Jóhannes telur að þarna þurfi að ráðast í úrbætur enda vegirnir nauðsynlegir og ekki hægt að bjóða upp á núverandi ástand þeirra.

Skálar Ferðafélagsins eru öllum opnir

Skálar Ferðafélags Íslands standa öllum opnir. Almenningur hefur not af gönguleiðum og brúm sem félagsmenn hafa merkt og smíðað. Útsýnisskífur lýsa staðháttum öllum sem á þær líta. Íslandslýsingar Ferðafélagsins, árbækurnar, eru öllum ætlaðar.

Félagið var stofnað 27. nóvember 1927 og á morgun, laugardag, verður ferðaáætlun FÍ fyrir sumarið kynnt á Toyota-sýningu í Kauptúni. Þar verður saga félagsins kynnt í máli og myndum og gestir geta hitað upp fyrir göngusumarið.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert