„Þetta er flókin staða“

Davíð Þór Björgvinsson er settur ríkissaksóknari í Guðmundar- og Geirfinnsmálinu.
Davíð Þór Björgvinsson er settur ríkissaksóknari í Guðmundar- og Geirfinnsmálinu. mbl.is/Rax

„Þetta er flókin staða. Við höfum aldrei staðið frami fyrir þessu áður. Það þarf að gefa fólki ráðrúm til að fara yfir stöðuna,“ segir Davíð Þór Björgvinsson, sett­ur rík­is­sak­sókn­ari í Guðmundar- og Geirfinnsmálinu, spurður um næstu skref í málinu. End­urupp­töku­nefnd hef­ur fall­ist á end­urupp­töku­beiðni fimm manna sem sak­felld­ir voru í tengsl­um við Guðmund­ar- og Geirfinns­mál­in á átt­unda ára­tugn­um. 

Ekki er víst að Davíð Þór haldi áfram sem ríkissaksóknari með málið. Hann bendir á að málið sé nokkuð flókið. Sá sem mun halda áfram með málið sem settur ríkissaksóknari mun  væntanlega snúa sér til hæstaréttar og óska eftir að saksóknara yrði veittur frestur til að skila greinagerð um málið. Málið yrði væntanlega tekið upp á grundvelli sömu ákæru. Eftir atvikum gæti saksóknari krafist þess að haldið yrði við þessum ákæruliðum eða fallið frá einstaka liðum.

„Það er samt óljóst hvort ákvörðun endurupptökunefndar sem er stjórnsýslunefnd er endanleg. Ástæðan er sú að nefndin getur sætt endurskoðun dómstóla, það er hæstaréttar,“ segir Davíð Þór.

Aðspurður hvort þetta þýði að fólkið sé sýknað, segir Davíð Þór að sú niðurstaða liggi ekki fyrir.  

„Ég held að allir séu af vilja gerðir til að fá niðurstöðu í málið. Það mun halda áfram og lýkur ekki hér,“ segir Davíð Þór. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert