Viðbúnaður á Kjalarnesi

Frá Kjalarnesi áðan - en þar er vonskuveður og ekkert …
Frá Kjalarnesi áðan - en þar er vonskuveður og ekkert ferðaveður.

Björgunaraðilar eru að aðstoða farþega úr tveimur rútum sem fóru út af veginum á Kjalarnesi. Verðið er að flytja fólk í fjöldahjálparmiðstöð sem Rauði krossinn hefur opnað. 

Mjög slæmt veður er á þessum slóðum og skyggni lítið sem ekkert. Vegagerðin er búin að loka leiðinni um Kjalarnes og Hellisheiði vegna mjög slæms veðurs á þessum slóðum.

Jón Brynjar Birgisson sviðsstjóri Rauða krossins stýrir aðgerðum á Kjalarnesi og segir hann að yfir 100 manns hafi leitað skjóls í hjálparmiðstöðinni. Þar er fólki boðið upp á mat, húsaskjól og bedda til að leggja sig á. „Þetta er eins og stórt heimili,“ segir Jón Brynjar þegar mbl.is ræddi við hann á ellefta tímanum.

Hann segir að það sé farið að hvessa mjög mikið á Kjalarnesinu en veðrið samt ekki orðið snarvitlaust. Fólkið sem er komið í miðstöðina er bæði úr rútunum tveimur og fjölda smábíla sem hafa farið útaf í óveðrinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert