Farsóttarhúsið selt á 220 milljónir

Tilkomumikil bygging á besta stað í miðborg Reykjavíkur. Með í …
Tilkomumikil bygging á besta stað í miðborg Reykjavíkur. Með í kaupunum fylgir 186 fm byggingarréttur á lóðinni fyrir ofan húsið. mbl.is/Sverrir Vilhelmsson

Borgarráð hefur samþykkt kauptilboð í eignina Þingholtsstræti 25, sem jafnan hefur verið kallað Farsóttarhúsið. Kaupverðið er 220 milljónir króna.

Kaupandinn er félagið Sjöstjarnan ehf. og undir kaupsamninginn ritar Skúli Gunnar Sigfússon, gjarnan kenndur við veitingastaðakeðjuna Subway.

Fram kemur í bréfi Hrólfs Jónssonar, yfirmanns skrifstofu eigna og atvinnuþróunar, sem lagt var fyrir borgarráð, að eignin var auglýst með áberandi hætti í dagblöðum og bárust tvö tilboð, það hærra kr. 220 milljónir frá Sjöstjörnunni ehf.

Einnig kemur fram í bréfinu að gengið verði frá kaupsamningi um eignina að Þingholtsstræti 25 og 186 fermetra byggingarrétti að Þingholtsstræti 25b, þegar deiliskipulag fyrir Grundarstígsreit hafi tekið gildi.

Fyrirvari sé í tilboðinu um að fyrirliggjandi deiliskipulagstillaga verði samþykkt auk hefðbundinna fyrirvara um fjármögnun. Sú kvöð verður sett í kaupsamning að öll skammtímagisting sé bönnuð í húsinu og verður þeirri kvöð þinglýst. Við kaupsamning verða greiddar 160 milljónir í peningum og 60 milljónir verða greiddar samhliða útgáfu afsals þremur mánuum eftir afhendingu eignar.

Þingholtsstræti 25 er veglegt hús, reist af Sjúkrahúsfélagi Reykjavíkur á árunum 1882-1884 úr timbri og stendur á hlöðnum kjallara. Húsið er klætt með bárujárni. Eignin er skráð 563 fermetrar. Helgi Helgason, trésmiður og tónskáld, teiknaði húsið.

Fyrsti spítalinn í borginni

Talið er að þetta sé fyrsta húsið sem byggt er á Íslandi gagngert sem spítali. Það var aðalsjúkrahús borgarinnar til ársins 1902, þegar Landakotsspítali tók til starfa. Þá var húsið gert að farsóttarsjúkrahúsi fyrir þá sjúklinga sem þurftu að vera í einangrun. Síðustu áratugina var húsið gistiskýli fyrir útigangsmenn.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert