Hreðjar verður nýr á hverju ári

Úr greinilega skemmtilegri Hreðjarsferð 2017, fremst eru Jón Atli og …
Úr greinilega skemmtilegri Hreðjarsferð 2017, fremst eru Jón Atli og Silja Rún, fyrir aftan f.v Bragi Heiðar, Stefán Bragi, Anna Guðrún og Daníel Atli. Á myndina vantar Unni.

Lífið er ljúft hér í Landbúnaðarháskólanum á Hvanneyri, ég er á mínu seinna ári núna, á búfræðibraut. Við erum samtals um sextíu nemendur í bændadeildinni og nokkrir í viðbót í búvísindadeildinni. Kynjahlutföll meðal nemenda mættu vera jafnari, það eru mun fleiri strákar en stelpur í skólanum. En þó er þetta nokkuð gott meðal nýnema sem byrjuðu í haust, það eru æði margar stelpur í þeim bekk, þær ná þó ekki að vera helmingur hópsins,“ segir Jón Atli Jónsson, núverandi formaður Hrútavinafélagsins Hreðjars, en það er félagsskapur sem einvörðungu nemendur við Landbúnaðarháskólann hafa aðgang að.

„Þetta er ekki félag um einn ákveðinn hrút, eins og margir þekkja í félögum sem stofnuð eru um stóðhesta, heldur er nýr hrútur valinn á hverju hausti, og hann heitir alltaf Hreðjar. Þetta hefur breyst nokkuð frá því þetta fór fyrst af stað árið 2003, því upphaflega keypti félagið hrút, en þau kaup voru lögð af og núna fáum við í raun lánaðan hrút. Við leitum til bæja hér í nágrenninu með Hreðjar hvers hausts, oftast förum við að bænum Hesti, þar sem kennslubú skólans er, því þar eru jú hægust heimatökin. En við höfum samt líka fengið hrúta á öðrum bæjum í nágrenninu.“

Hreðjar annar var fríður og fallega hvítur lambhrútur.
Hreðjar annar var fríður og fallega hvítur lambhrútur.

Hyrndur eða kollóttur?

Stjórnin sem er yfir hrútavinafélaginu hverju sinni sér um að fara og velja hrút að hausti, og hann er yfirleitt kynbótahrútur ætlaður til undaneldis.

„Við reynum að velja fallegan hrút sem er gæddur góðum eiginleikum til undaneldis. Vissulega kemur fyrir að ágreiningur sé í stjórninni um hvaða hrút skuli velja, en það er þá helst ágreiningur um hvort hann eigi að vera hyrndur eða kollóttur. Í árdaga félagsins var sá háttur hafður á í þessum félagsskap að Hreðjar var ekki ætlaður til undaneldis heldur var hann alltaf felldur fyrir grillveislu félagsins og nemendur gæddu sér þar á kjötinu. Núna er þetta breytt og við slátrum ekki skepnunni fyrir þá veislu, heldur fáum annað kjöt og Hreðjar fær að lifa áfram þó svo að nýr hrútur taki við hlutverki hans sem hrútur félagsins.“

Hjördís Ólafsdóttir, búfræðinemi á öðru ári, og Guðmundur Hafþór Helgason, …
Hjördís Ólafsdóttir, búfræðinemi á öðru ári, og Guðmundur Hafþór Helgason, búfræðinemi á fyrsta ári.

Hrútauppboð fyrir árshátíð og Hreðjarsgrillveisla að vori

Þó að markmið hrútavinafélagsins Hreðjars sé að efla og auka áhuga á íslenskri sauðfjárrækt og að koma af stað umræðu um framtíðarsýn og möguleika greinarinnar, þá er tilgangurinn ekki síst sá að efla félagslífið innan skólans. Félagið stendur fyrir fjórum föstum viðburðum yfir skólaárið sem eru opnir öllum nemendum skólans.

„Á hverju vori er fyrrnefnd matarveisla með tilheyrandi fjöri og hún heitir Hreðjarsgrill. Félagið stendur líka alltaf fyrir hrútauppboði á föstudegi fyrir árshátíð skólans, en þá kaupir fólk sér hlut í hrútnum Hreðjari og kaupir sig þar með inn í grillveisluna vorið eftir.

Hrútavinafélagið Hreðjar fer ævinlega í tvö ferðalög á ári, annars vegar í svokallaða Hreðjarsferð, sem er dagsferð, og við fórum í eina slíka núna í janúarlok. Þá heimsóttum við bæinn Sámsstaði í Hvítársíðu, við vorum fimmtíu manns í þeirri ferð og við skoðuðum fjárhúsinu og spjölluðum við ábúendur sem sögðu okkur frá hvernig þeir vinna á sínu búi og hvernig afurðir þeirra eru. Þessi ferð er blanda af fræðslu og skemmtun.“

Fyrir þrettán árum var þessi hrútur valinn fyrsti Hreðjar.
Fyrir þrettán árum var þessi hrútur valinn fyrsti Hreðjar.

Sviðaveisla og dansleikur

Hin árlega ferðin sem hrútavinafélagið stendur fyrir kallast Dalaferð, en þá fer félagið á haustfagnað sauðfjárbænda í Dalasýslu. „Á föstudagskvöldinu er sviðaveisla og hrútasýningar á tveimur bæjum þar sem hrútar eru kynbótadæmdir. Fagnaðurinn endar á rúningskeppni á laugardeginum sem og grillveislu sama kvöld og dansleik. Þetta er mikið fjör og gaman, enda snýst hrútavinafélagið fyrst og fremst um að nemendur geri eitthvað skemmtilegt saman.“

Jón Atli segir nóg að gera á Hvanneyri og ýmislegt framundan.

„Á þessum árstíma í skólanum er næst á dagskrá búfjárræktarferð þar sem nemendur skólans ætla að gera víðreist á Suðurlandi. Við ætlum að skoða fjós, fjárhús og hesthús og hitta bændur. Og við heimsækjum líka í þeirri ferð fyrirtæki tengd landbúnaði. Þetta verður gaman.“

Heimasíða Landbúnaðarháskólans á Hvanneyri: www.lbhi.is
r Jón Atli með nýjasta Hreðjar, þann þrettánda. Lopapeysan skartar …
r Jón Atli með nýjasta Hreðjar, þann þrettánda. Lopapeysan skartar hrútum og bæjarnúmeri heimabæjar Jóns Atla, sem er Gröf í Skaftártungu. Peysan er afmælisgjöf frá foreldrum Jóns en Ragna í Fagradal prjónaði.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert