Nokkur seinkun á flugi í dag

Brottfararsalur í Flugstöð Leifs Eiríkssonar í Keflavík.
Brottfararsalur í Flugstöð Leifs Eiríkssonar í Keflavík. mbl.is/Sigurgeir Sigurðsson

Nokkuð hefur verið um seinkun á brottförum farþegaflugs frá Keflavíkurflugvelli í dag vegna veðurs. Nemur seinkun í dag mest um tveimur klukkustundum eða skemur.

„Það var auðvitað mjög erfitt í morgun og fyrri hluta dags á Keflavíkurflugvelli. Ekkert bara út af flugbrautunum sjálfum heldur áttu starfsfólk og farþegar og áhafnir auðvitað mjög erfitt með að komast leiðar sinnar,“ segir Guðjón Arngrímsson, upplýsingafulltrúi Icelandair.

Guðni Sigurðsson, upplýsingafulltrúi Isavia, segir að vel hafi gengið í flugstöðinni í morgun og í dag miðað við aðstæður. Flestum flugum, sem fara eiga frá Keflavík síðdegis í dag, seinkar um um það bil tvær klukkustundir og komum til Keflavíkur sömuleiðis.

„Svo voru bara öll snjómoksturstæki úti og verið að hreinsa brautir og svæði í kring. Þetta gekk bara mjög vel,“ segir Guðni. „Flugbrautirnar hafa verið vel hreinsaðar, alveg síðan í nótt, þannig að það hafa verið bara góð skilyrði.“

Ein vél hætti við að lenda í Keflavík en að öðru leyti hafa verið minni háttar seinkanir hvað varðar komur til Keflavíkur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert