Sigurður Ingi gagnrýndi ráðherra

Sigurður Ingi Jóhannsson.
Sigurður Ingi Jóhannsson. mbl.is/Eggert

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, spurði sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um endurskoðunarnefnd vegna búvörusamninga og matvælaöryggi í óundirbúnum fyrirspurnum á Alþingi í dag.

Sigurður sat ráðstefnu um matvælaöryggi um helgina en þar var fjallað um áhyggjur manna af að breytt fyrirkomulag innflutnings á ferskum matvælum gæti leitt til verri stöðu hér á landi. „Á þessum fundi komu fram áhugaverðar staðreyndir vísindamanna um að gríðarleg verðmæti felist í þeirri einstöku stöðu sem dýraheilbrigði á Íslandi býr við,“ sagði Sigurður.

„Endurskoðun búvörusamninga og útfærsla á innflutningskvótum stendur til. Því spyr ég ráðherra hvort að hann, eða hún, taki þessi sjónarmið alvarlega. Deili áhyggjum þessara vísindamanna af þessari stöðu og hvort þessi sjónarmið, eða jafnvel þessir sérfræðingar, verði teknir inn í vinnu ráðuneytisins á útfærslu á reglum ef með þarf?“ spurði Sigurður og beindi orðum sínum til Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.

Þorgerður sagði að það væri tilefni til að fylgjast vel með því sem tengist matvælaöryggi. „Þannig að ég deili um margt skoðunum þingmanns um leið og ég segi já, við fylgjumst vel með málinu,“ sagði Þorgerður.

Hlustað verður á sérfræðinga og ráð þeirra en á sama tíma á að stíga varlega til jarðar. „Við þurfum að hafa eftir sem áður hagsmuni bænda, hagsmuni neytenda, hagsmuni umhverfis og hagsmuni náttúru- og dýraverndar að leiðarljósi,“ bætti Þorgerður við.

Vill höfða til breiðari hóps

Sigurður Ingi gagnrýndi ráðherra fyrir að hafa sett talsmann Félags atvinnurekenda í nefnd um endurskoðun búvörusamninga í stað Ögmundar Jónassonar. „Sem er félag heildsala, sem er félag hagsmunaðila. Ekki trúir ráðherrann því að heildsalar séu fulltrúar neytendasjónarmiða í endurskoðun á búvörusamningum?“

Þorgerður sagði að það hefði verið nauðsynlegt að koma til móts við þau sjónarmið sem atvinnuveganefnd þingsins setti fram í sínu áliti varðandi búvörusamningana. Það þyrfti að höfða til breiðari hóps en hefur verið.

„Ég tel mikilvægt að nefndin endurspegli breiðari sjónarmið heldur en komu fram af hálfu þáverandi ráðherra Framsóknarflokksins í ríkisstjórn,“ sagði Þorgerður og bætti við að hún treysti öllum þeim sem sætu í endurskoðunarnefndinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert