Snjódýptin í Borgarfirði var 63 sm

Snjódýpt hefur aldrei mælst meiri á höfuðborgarsvæðinu í febrúar.
Snjódýpt hefur aldrei mælst meiri á höfuðborgarsvæðinu í febrúar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Hvergi snjóaði meira en í Borgarfirðinum aðfaranótt síðasta sunnudags samkvæmt opinberum mælingum Veðurstofu Íslands, en ofankoma mældist þar 63 sm.  

„Snjódýpt innan höfuðborgarsvæðisins var nokkuð breytileg,“ segir Teitur Arason, vakthafandi veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands. „Sjálfur mældi ég 57 sm snjódýpt í nágrenni heimilis míns, ofarlega í nýja Kópavoginum, en á Veðurstofutúninu var hún 51 sm.“

Óvenjulegt er að svo miklum snjó kyngi niður á sama svæðinu. „Það getur hafa unnið með snjódýptinni að það var ekki mikill vindur, þannig að snjórinn var léttur í sér og þjappaðist ekki saman af völdum vinds,“ segir Teitur. Erfiðara sé að spá um snjódýpt en marga aðra veðurþætti vegna allra þeirra breyta sem hafa áhrif. „Þetta er alla vegna mjög óvenjulegt, sérstaklega á þessum hluta landsins.“

Trausti Jónsson birti á bloggsíðu sinni töflu með upplýsingum um …
Trausti Jónsson birti á bloggsíðu sinni töflu með upplýsingum um mestu snjódýpt í einstökum mánuðum í Reykjavík. Segir hann marsmetið líklegt til að falla nú í vikunni, þar sem útlit sé fyrir að veður haldist óbreytt um sinn. mbl

Snjóinn þegar tekið að þjappa saman

Á korti Veðurstofunnar má sjá að snjórinn er nú þegar tekinn að þjappast saman og mældist snjódýptin á Veðurstofutúninu þannig 47 sm klukkan níu í morgun og 56 sm í Neðra-Skarði Borgarfirðinum.

Eftir mjög snjóléttan og mildan vetur kemur þessi ofankoma sem Teitur segir eiginlega falla í öfugan landshelming við það sem venjulega er, þar sem venjulega sé snjóþyngra fyrir norðan. „Nú er hins vegar snjóþyngst á suðvestanverðu landinu,“ segir Teitur og kveður lítið útlit fyrir breytingu þar á.

Horfur eru á rólegu vetrarveðri næstu daga og engin hláka er sjáanleg í kortunum, en að sögn Teits mun veður líklega haldast þannig þessa vikuna. Ekki er heldur útlit fyrir að það bæti í snjóinn, þar sem lítil sem enginn úrkoma verður á landinu næstu daga.

Hæglætisveður vegna fyrirstöðuhæðar

Örlítil él eru austast á landinu þar sem norðanátt er um 10 m/s, en annars staðar er vindur hægur, léttskýjað og kalt. Smá dægursveifla er þó komin í hitann, þannig að sólin er aðeins farin að hlýja yfir hádaginn.

Að sögn Teits er það fyrirstöðuhæð sem veldur þessu hæglætisverðri. „Þær geta verið þaulsetnar og spár gera ráð fyrir að hún verði þarna alla vega í viku. Það er óljóst hvað tekur síðan við, en það er engin sérstök ástæða til að telja það verði einhver asahláka.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert