Svöruðu ekki könnun vegna ótta

Hópur flóttamanna frá Sýrlandi kom hingað til lands í síðasta …
Hópur flóttamanna frá Sýrlandi kom hingað til lands í síðasta mánuði. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Aðeins 15% flóttafólks sem hér hafa sest að svöruðu nýrri könnun sem gerð var á högum stöðu flóttamanns/alþjóðlega vernd á Íslandi á árunum 2004-2015. Helsta ástæðan fyrir lélegu svarhlutfalli var ótti fólks við að svör þeirra færu lengra eða væru notuð gegn þeim. 

Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýrri skýrslu Alþjóðamálastofnunar, sem unnin var fyrir innanríkisráðuneytið og velferðarráðuneytið, þar sem þjónusta við flóttafólk og innflytjendur er greind. Skýrslan var kynnt á fundi í Norræna húsinu í dag.

Þorsteinn Víglundsson, félags- og jafnréttismálaráðherra, ávarpaði fund Alþjóðamálastofnunar.
Þorsteinn Víglundsson, félags- og jafnréttismálaráðherra, ávarpaði fund Alþjóðamálastofnunar. mbl.is/Golli

Hafa gert íslenskt samfélag betra

Þorsteinn Víglundsson, félags- og jafnréttismálaráðherra, væntir þess að skýrslan sem kynnt er í dag verði mikilvægur liður í umræðu um móttöku flóttafólks. Vægi íbúa af erlendu bergi brotnu hafi aukist og gert íslenskt samfélag betra. Ráðherra benti á í ávarpi sínu að aldrei hafi fleiri verið á hrakhólum í heimunum og nú og það sé skylda ríkja heimsins að gera betur.

Fjöldi þeirra sem hefur fengið vernd hér á landi hefur aukist mjög undanfarin ár, bæði kvótaflóttamenn og þeir sem koma hingað á eigin vegum og sækja um hæli á Íslandi. Þorsteinn segir að það sé sá hópur sem stjórnvöld þurfa að sinna betur og bæta þá þjónustu sem veitt er af hálfu hins opinbera. Að sögn Þorsteins búa þeir við töluvert lakari stöðu en þeir sem koma hingað til lands sem kvótaflóttamenn. En þetta er oft fólk sem hefur gengið í gegnum miklar hörmungar á flóttanum frá heimalandinu.

Þorsteinn segir að á vegum stjórnvalda hafi verið ákveðið að skipa nefnd sem er ætlað að skoða mismunandi þjónustu sem þessum hópum flóttafólks býðst hér og hvernig hægt er að bæta hana. Jafnframt hafi ríkisstjórnin markað sér stefnu um að fjölga þeim kvótaflóttamönnum sem hingað koma. 

Nær allir undir fimmtugu

Félagsvísindastofnun framkvæmdi skoðanakönnunina meðal flóttafólks sem fékk dvalarleyfi á Íslandi á árunum 2004-2015. Þýði könnunarinnar voru 255 einstaklingar, 18 ára og eldri.

Flóttafólk sem fengið hefur dvalarleyfi á Íslandi á síðustu 12 árum er nær allt undir fimmtugu og því er elsti aldursflokkurinn sem birtur er í skýrslunni 46 ára og eldri.

Í öðru lagi er flóttafólkið nær allt búsett á suðvesturhorni landsins. Aðeins rúmlega fimmtungur býr utan höfuðborgarsvæðisins og flestir þeirra búa á Reykjanesi eða Akranesi.

Í þriðja lagi hefur meirihluti flóttafólksins fengið dvalarleyfi á Íslandi í kjölfar hælisumsóknar, eða 72%, og komu því til landsins á eigin vegum en ekki sem hluti af hópi kvótaflóttafólks.

Bylgja Árnadóttir og Ásdís A. Arnalds, verkefnisstjórar Félagsvísindastofnunar, kynntu helstu niðurstöður úr skoðanakönnun meðal flóttafólks á Íslandi og rýnihóparannsókn á ráðstefnunni.

Við undirbúning skoðanakönnunarinnar reyndist erfitt að fá tölur um fjölda flóttafólks sem fengið hafði dvalarleyfi á því tímabili sem skoða átti. Það mætti því bæta utanumhald á tölfræðilegum upplýsingum varðandi flóttafólk sem kemur til landsins, í þeim tilgangi að hægt sé að átta sig á mögulegum þörfum flóttafólksins, að því er kom fram við kynningu á skýrslunni í dag.

„Niðurstöður könnunarinnar sjálfrar hafa því miður takmarkað gildi sem mælikvarði á stöðu og líðan flóttafólks á Íslandi sökum lélegs svarhlutfalls.

Einungis 15% svarhlutfall náðist þrátt fyrir fjölbreyttar aðferðir til gagnaöflunar. Helsta ástæðan virtist vera sú að flóttafólk veigraði sér við að svara könnuninni af ótta við að svör þeirra færu lengra eða væru notuð gegn þeim. Eingöngu ætti því að skoða niðurstöðurnar sem vísbendingar um raunverulega stöðu og forðast að alhæfa umflóttafólk í heild sinni út frá þeim,“ segir í skýrslunni.

Bylgja Árnadóttir, verkefnisstjóri Félagsvísindastofnunar, kynnti helstu niðurstöður úr skoðanakönnun meðal …
Bylgja Árnadóttir, verkefnisstjóri Félagsvísindastofnunar, kynnti helstu niðurstöður úr skoðanakönnun meðal flóttafólks á Íslandi og rýnihóparannsókn. mbl.is/Golli

Töluverður munur á þjónustu 

Í spurningum um hvers konar þjónustu flóttafólkið fékk eftir að það fékk dvalarleyfi á Íslandi kemur fram nokkur munur á milli kvótaflóttafólks og þeirra sem fengu dvalarleyfi í kjölfar hælisumsóknar.

Aðspurð um hvaða þjónustu þau hafi fengið eftir að þau fengu dvalarleyfi á Íslandi nefna 88% kvótaflóttafólksins húsnæði en aðeins 32% þeirra sem komu á eigin vegum nefna þann þátt, og var sá munur milli hópa marktækur. 

Marktækur munur var einnig á því hvort svarendur hefðu fengið aðstoð stuðningsfjölskyldu á vegum Rauða krossins, en 88% kvótaflóttamanna höfðu fengið stuðningsfjölskyldu en 18% þeirra sem komu á eigin vegum.

Fæstir þekktu Fjölmenningarsetur og lítið traust á félagsþjónustu

Í spurningum um traust til hinna ýmsu stofnana sem koma að málefnum flóttafólks kom í ljós að meirihluti svarenda þekkti ekki Fjölmenningarsetur.

Af þeim stofnunum sem spurt var um naut Rauði Krossinn mests trausts en 67% svarenda báru mikið eða mjög mikið traust til hans. Um 50% báru mikið eða mjög mikið traust til Útlendingastofnunar og lögreglunnar. Rétt rúmlega 30% báru mikið eða mjög mikið traust til félagsþjónustunnar. 59% segjast treysta kærunefnd útlendingamála en fjölmargir þekktu einfaldlega ekki til starfsemi hennar. 

Þrír fjórðu hlutar svarenda búa í leiguhúsnæði, helmingur svarenda er á almennum leigumarkaði og 27% í leiguhúsnæði á vegum sveitarfélagsins.

Aðeins 16% sögðu fjárhagsstöðu sína vera mjög góða eða góða en 70% svarenda voru með 300.000 kr. eða minna í heildartekjur á mánuði fyrir skatt.

Í hópi svarenda voru 42% í launuðu starfi, 18% í námi og 13% í atvinnuleit en 21% öryrkjar. Meirihluti þeirra sem voru í vinnu, eða 69%, störfuðu við þjónustu-, umönnunar-, sölu- og afgreiðslustörf. Þetta er ekki í samræmi við þau störf og menntun fólks áður en það kom hingað til lands. Tveir þriðju hlutar þeirra voru frekar, mjög eða að öllu leyti ánægðir í vinnunni. 

Ásdís A. Arnaldsdóttir, verkefnisstjóri Félagsvísindastofnunar, kynnti helstu niðurstöður úr skoðanakönnun …
Ásdís A. Arnaldsdóttir, verkefnisstjóri Félagsvísindastofnunar, kynnti helstu niðurstöður úr skoðanakönnun meðal flóttafólks á Íslandi og rýnihóparannsókn. mbl.is/Golli

Svarendur höfðu litlar áhyggjur af því að missa vinnuna (72% höfðu litlar eða engar áhyggjur af því) og meðal þeirra sem voru ekki í vinnu töldu allir það vera líklegt eða mjög líklegt að þeir fengju vinnu. Meirihluti vinnufærra, eða 70%, hafði áhuga á að hefja eigin rekstur eða stofna fyrirtæki.

Um helmingur talar og skilur íslensku vel

Um helmingur svarenda sagðist skilja og tala íslensku mjög eða frekar vel. Allir svarendur höfðu þó áhuga á að læra hana betur. Svör við spurningum um þörf fyrir þjónustu, um nýtingu menntunar og í athugasemdum í lok könnunarinnar benda til þess að íslenskukunnátta tengist flestum öðrum þáttum aðlögunar og að margir teldu þörf á meiri íslenskukennslu.

Þegar spurt var um upplifun flóttafólksins af fordómum kom fram að vettvangur fordóma
og mismununar virtist helst vera við ráðningu í starf (46%), í vinnu (47%), í námi (43%) og á almenningssvæðum (43%).

Þrátt fyrir það sögðust 73% svarenda vera nokkuð eða mjög hamingjusöm og stærstur hluti svarenda eða 83% sögðust helst vilja búa á Íslandi.

Hátt hlutfall sagði heilsu sína góða en þrátt fyrir það eru það mun lægra hlutfall en þegar sambærileg spurning er lögð fyrir Íslendinga og á þetta einnig við um fjárhagsstöðu fólks. 

Við gerð rannsóknarinnar var hringt í fólk á lista Útlendingastofnunar yfir þá sem fengu stöðu flóttafólks á árunum 2004 til 2015. Þátttakendum var skipt í hópa eftir því hvaða tungumál það óskaði eftir að nota í hópunum. 

Þátttakendur voru sammála um að íslenskukunnátta væri lykillinn að íslensku samfélagi. Þátttakendur bentu á að íslenskukennslu væri ábótavant og kennslan þótti ekki nógu einstaklingsmiðuð. Bent var á að fólk sem kemur hingað sem flóttafólk hafi ekki fjárráð til að læra íslensku sem samt væri grunnurinn að því að það fengi vinnu og næði að fóta sig hér á landi.

Þátttakendur töldu þörf á að bæta aðgengi að mikilvægum upplýsingum og bentu á að mikilvægt væri að skipulag stuðnings og upplýsingagjafar sé unnið með aðkomu flóttafólks.

Í rýnihópunum lýstu þátttakendur því að þeim þætti óljóst hvaða stuðningi þeir ættu rétt á og að lítil samfella væri í þjónustunni. Þeim fannst því þörf á að auka samstarf milli stofnana sem koma að þjónustu við flóttafólk.

Bent var á að mikilvægt væri að jafna aðgang að stuðningsfjölskyldum og aðstoð við að tryggja sér húsnæði. Stuðningsfjölskyldur skipti miklu en ekki fá allir þann stuðning. Á það benti einn viðmælenda sem kom hingað einn og óttast að þegar hann eignast börn þá fái þau ekki þær upplýsingar sem stuðningsfjölskyldur geta veitt meðal annars varðandi menningu og siði í íslensku samfélagi.

Þátttakendur voru einróma um að stórefla þurfi náms- og starfsráðgjöf. Þeir voru sammála um að gera þyrfti einstaklingsbundnar áætlanir um hvernig skuli stuðla að farsælli aðlögun fyrir hvern og einn. Meðal annars ræddi fólk um aðlögun á vinnumarkaði því það hljóti að vera mikilvægt að fá flóttafólk út á vinnumarkaðinn í stað þess að það sé á framfæri félagsþjónustunnar.

Bjóða þurfi upp á stuðning við fólk, td konur sem hafa aldrei áður haft möguleika á að vera á vinnumarkaði fyrr. 

Margir þeirra búa við bágar fjárhagsaðstæður og það eykur vanlíðan fólks. Til að mynda sjáist það á heimilum flóttafólks þar sem ekkert sjónvarp er og kannski enginn ísskápur þar sem þetta eru hlutir sem kosti peninga sem það á ekki. 

Flóttafólk frá Sýrlandi sem kom hingað fyrir ári síðan.
Flóttafólk frá Sýrlandi sem kom hingað fyrir ári síðan. Morgunblaðið/Skapti Hallgrímsson

Í öðrum kafla skýrslunnar er að finna greiningu á viðtölum sem tekin voru við átta einstaklinga sem starfa við aðlögun flóttafólks dagsdaglega og þau greind í sex þemu auk þess sem samanburður var gerður á þeirri þjónustu sem er í boði fyrir flóttafólk á Íslandi miðað við í Svíþjóð, Noregi og Danmörku.

Auður Birna Stefánsdóttir, verkefnisstjóri hjá Alþjóðamálastofnun, kynnti niðurstöður úr eigindlegri rannsókn á umbótatækifærum í þjónustu við flóttafólk frá sjónarhóli sérfræðinga sveitarfélaga og Rauða kross Íslands á fundinum.

Í viðtölunum var lögð áhersla á að marka þyrfti langtímastefnu í málefnum flóttafólks. Mikilvægt væri að markmiðin með aðlöguninni væru skýrari og markvissari og skerpa þyrfti enn frekar á hlutverkaskipan stofnanna.  

Í skýrslunni kemur fram að Svíþjóð, Noregur og Danmörk eru með aðlögunarlög þar sem kveðið er á um réttindi og skyldur flóttafólks og hlutverk opinberra stofnanna í aðlöguninni, en slík lög um aðlögun er ekki að finna á Íslandi.

„Ef horft er til samanburðarlandanna Svíþjóðar, Noregs og Danmerkur, má sjá að mun fleiri úrræði hafa verið þróuð þar til að aðstoða fólk við að komast inn á vinnumarkaðinn en á Íslandi, en reynsla samanburðarlandanna að sama skapi mun lengri af móttöku flóttafólks.

Í samanburðarlöndunum er lögð áhersla á vinnutengt tungumálanám og margvísleg vinnumarkaðsúrræði sem eru samofin aðlögunaráætlun hvers og eins,“ segir í skýrslunni.

Túlkaþjónustu ábótavant á Íslandi

Viðmælendur töldu megin forsendu góðrar þjónustu við flóttafólk felast í góðri túlkaþjónustu. Bent var á að henni væri ábótavant á Íslandi, bæði hvað varðar menntun túlka og þegar kemur að notkun túlka hjá opinberum stofnunum. Það væri grunnforsenda fyrir því að fá góða þjónustu sé að fá hæfa túlka til starfa. 

Í Noregi og Svíþjóð er utanumhald kringum túlkaþjónustu í fastari skorðum en í Danmörku og á Íslandi, en þar sér ríkið um að halda utan um menntun túlka og heldur úti skrá yfir hæfa túlka sem opinberir starfsmenn geta leitað í.

Viðmælendur voru sammála um að það skapaði ójöfnuð að flóttafólk fengi ekki sömu þjónustu þegar kemur að því að tryggja sér húsnæði á Íslandi, eftir því hvort það kemur sem kvótaflóttafólk eða á eigin vegum og sækir hér um vernd. Nauðsynlegt væri að búa svo um að öllum stæði til boða samskonar aðstoð við að tryggja sér húsnæði og húsbúnað, segir í skýrslunni.

Flóttafólk frá Sýrlandi við komuna til Íslands í Leifsstöð.
Flóttafólk frá Sýrlandi við komuna til Íslands í Leifsstöð. mbl.is/Eggert

Í öllum samanburðarlöndunum er sérstakt kerfi þar sem ein stofnun ber ábyrgð á að útvega flóttafólki sem fengið hefur dvalarleyfi í landinu húsnæði, hvort sem það kemur á eigin vegum eða sem kvótaflóttafólk.

Viðmælendur töldu allir að nauðsynlegt væri að endurskoða þjónustu við flóttafólk með það að leiðarljósi að jafna stöðu þess og koma í veg fyrir þá tvískiptingu sem myndast hefur milli hópanna tveggja. Það skapaði erfiðleika í þjónustunni að hafa mismunandi leiðbeinandi reglur fyrir þessa tvo hópa.

Lagt var til að núverandi kerfi væri breytt og áhersla lögð á að búa til eitt kerfi fyrir alla þar sem rými væri til að sníða þjónustuna að hverjum einstaklingi fyrir sig, eftir því hversu mikla hjálp hann þarf til að aðlagast samfélaginu.

Húsnæðismál eru nefnd af öllum sem hingað koma á eigin vegum. Mikill skortur sé á húsnæði og ómögulegt að hefja aðlögun fyrr en öruggt húsnæði er í höfn. Nefnt var að ekkert annað væri í boði en Gistiskýlið eða jafnvel gatan. 

Allir sammála um að nauðsynlegt sé að jafna stöðu flóttafólks og koma í veg fyrir þessa ólíku þjónustu milli kvótaflóttafólks eða þeir sem fá hæli hér. Því þetta skapi gremju og óánægju meðal þeirra sem fá slakari þjónustu en hinir.

 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert