Tónlistarmæðgur búa saman til bíó

Eva og Andi hafa alla tíð unnið verkefni saman.
Eva og Andi hafa alla tíð unnið verkefni saman.

Eva Ingolf er klassískur fiðluleikari sem byrjaði að spila þegar hún var lítil og lauk seinna meir háskólanámi í fiðluleik. Andrea Kristinsdóttir, sem alltaf er kölluð Andi, byrjaði þriggja ára að læra á fiðlu eins og mamma hennar.

„Með tímanum bætti ég svo við píanói, hörpu, gítar, ukulele, óbó og svo trommum hér og þar,“ segir Andrea, en pabbi hennar og eiginmaður Evu, Kristinn Sv. Helgason er Debute Chief of Development Corporation Branch fyrir Sameinuðu þjóðirnar og hafa þau þar af leiðandi búið víða um heim. Minnst þó á Íslandi en í Kenía, Zimbabwe, Pakistan, Japan og í ólíkum ríkjum Bandaríkjanna, og hvarvetna pikkaði Andrea upp nýstárleg hljóðfæri sem hún lærði að spila á.

„Við höfum spilað saman síðan Andrea var um fimm ára, samið tónlist og gert myndbönd,“ svarar Eva þegar hún er spurð að því hvort stuttmyndirnar hennar séu fyrstu samstarfsverkefni þeirra mæðgna.

Eva á kvikmyndahátíð með öðrum leikstjórum og leikurum.
Eva á kvikmyndahátíð með öðrum leikstjórum og leikurum.


„Já, við höfum alltaf verið að búa til eitthvað saman í gegnum tíðina,“ tekur Andrea undir.

Þegar blaðamaður spyr hvort þær séu samrýmdar mæðgur, líta þær á hvor aðra og skella báðar upp úr. „Stundum,“ segir Andrea. „Nei, alltaf,“ segir Eva sposk á svip.

Sýndi fyrst í Lincoln Center

„Ég hef alltaf haft gaman af tækni, að leika með vídeó og klippa. Ég fékk prógramm í tölvuna, sem gerir ýmiskonar þrívíddarfígúrur og mér fannst það svo skemmtilegt að ég var alltaf að prófa mig áfram. Fyrsta myndin sem ég gerði hét „Martian Mating Moves“ með dansandi geimverum. Ég kom myndinni inn á kvikmyndahátíðina Dance on Camera sem haldin var í Lincoln Center. Mér fannst það nú ansi góð byrjun hjá mér af því að ég kunni ekki það mikið í faginu þá,“ segir Eva. „Ég ákvað því að búa til aðra mynd sem heitir „The Dream“ og það er mun meiri tækni á bak við hana. Hún hefur verið sýnd á tveimur hátíðum nú þegar; í Brooklyn á New York Short Film Tuesays og líka á nethátíð. Ég er nýbúin að frétta að það eigi að sýna hana í Southern Arizona Independant Film Festival og sennilega líka í Chicago's International Children's Film Festival.“

Geimverur og fólk eru vinir í myndinni The Dream, sem …
Geimverur og fólk eru vinir í myndinni The Dream, sem er önnur mynd Evu og var sýnd á tveimur hátíðum.


Vinnur með fólki úti um allan heim

Andrea sem einnig hefur lært tónsmíðar og upptökustjórn, samdi á seinasta ári tónlist við þrettán myndir.

„Ég byrjaði óvart að semja fyrir bíómyndir. Ég var að vinna við leikrit sem vann til margra verðlauna, og það var gerð bíómynd upp úr því. Í því voru mörg þekkt lög og tónverk, sem leikstjórinn bað mig að vinna með. Samstarfsfólkið mitt í þeirri mynd hafði síðan samband við mig út af næsta verkefni þeirra og þannig fór boltinn að rúlla. Ég hef líka hljóðblandað eina mynd og framleitt aðra,“ segir Andrea sem aðallega vinnur tónlist fyrir stuttmyndir, allt upp í hálftíma langar. „Ég er núna að vinna með leikstjóra í Danmörku, öðrum í Íran, Los Angeles og líka hér í New York. Mér finnst mjög gaman að geta unnið ein en samt með fólki úti um allt,“ segir Andrea sem er með stúdíó heima hjá sér í Brooklyn, þar sem hún semur tónlistina, spilar hana inn, hljóðblandar og sendir svo viðkomandi leikstjóra.

Vinveittar geimverur

Myndin „The Dream“ fjallar um lítið barn sem sofnar úti í íslenskri náttúru og fer á flug með geimverum og fleiri furðuverum.

„Fólkið hefur gaman af hugmyndinni. Það horfir bara á mig og spyr: hvernig datt þér þetta í hug?“ segir Eva og hlær.

„Mér finnst geimverur bara svo skemmtilegar. Í þessu tölvuprógrammi eru vissir karakterar sem hægt er að leika sér með og breyta, og geimverurnar höfðuðu mest til mín og þær gefa mér tækifæri til að búa til öðruvísi sögu.“

Andrea bætir við að það passi líka vel við að landslag á Íslandi sé eiginlega eins og á tunglinu.

Andi (lengst t.h.) á Big Apple Film Festival í New …
Andi (lengst t.h.) á Big Apple Film Festival í New York.


„Og rétt eins og draumar þá meikar myndin engan sens,“ segir Eva kankvís.

„Stephen Hawking fjallaði um að ef við myndum hitta geimverur myndu samskiptin vera óvinveitt. Ég reyni hins vegar að sjá það öðruvísi, að það yrði samvinna og jafnvel spennandi að miðla ólíkum menningarheimum til hvort annars,“ segir Eva sem er á lokasprettinum með framhaldið á The Dream, en þar mun sama litla barn halda áfram að lenda í nýjum ævintýrum.

Samvinnan skemmtilegust

„Þegar ég er búin með myndina er ég orðin svo þreytt í kollinum,“ svarar Eva þegar hús er spurð að því af hverju hún semji ekki sjálf tónlistina við myndirnar sínar.

Eva Ingolf vinnur bæði sem fiðluleikari og tónskáld.
Eva Ingolf vinnur bæði sem fiðluleikari og tónskáld.


„Svo er jafnvel „deadline“ og ég þarf að flýta mér að klára myndina. Þá liggur beinast við að biðja Andreu að semja tónlistina. Það er líka bara gaman og svo er hún svo hæfileikarík.“

„Mamma sendir litla búta úr myndinni til mín og ég sem tónlist við þá og svona vinnum við í þessu fram og til baka. Það er einmitt þessi samvinna sem er svo skemmtileg í bíómyndum; hve margir koma oft að verkinu, maður er bara einn hlekkur í keðjunni, en allir verða að leggjast á eitt til þess að myndin verði að raunveruleika. Það er eiginlega ástæðan fyrir því að ég hef alveg dottið inn í þennan heim,“ segir Andrea en henni fannst mjög skemmtilegt að vinna tónlistina fyrir geimverumynd mömmu sinnar.

„Mér finnst mjög gaman að detta inn í annan heim eins og þetta litla barn gerir í myndinni. Tónlistin er smá súrrealísk eins og myndin, en samt er leiðarstef sem tengir ólík atriði myndarinnar saman. Ég notaði mikið raftónlist í þessa mynd, sem var gaman því ég var að ljúka við mynd með klassískri tónlist og tilheyrandi fiðlum, og þetta var eitthvað allt annað, meðal annars dansatriði fyrir skrímsli,“ segir Andrea sem mun semja tónlist við áframhaldandi ævintýri litla barnsins.

Eva Ingolf vinnur bæði sem fiðluleikari og tónskáld.
Eva Ingolf vinnur bæði sem fiðluleikari og tónskáld.


Að kynnast Íslandi upp á nýtt

Eva segist ekki vera búin að snúa baki við tónlistinni þótt hún hafi gaman af kvikmyndagerðinni.

„Ég samdi mikið af tónlist í gamla daga, og er byrjuð á því aftur og finnst voðalega gaman að hafa núna tíma til að senda frá mér tónlist,“ segir Eva sem hefur seinustu fimm sumur komið til Íslands að vinna tónverk.

„Við erum þrjár listakonur sem höfum farið til nýrra staða á Íslandi öll þessi sumur og unnið verk út frá staðnum. Ég sem tónlistina, Gunnbjörg Óladóttir er ljóðskáldið og Rakel Steinarsdóttir er myndlistarkonan. Við skilum svo verkefninu eftir dvöl á staðnum. Mér finnst þetta mjög skemmtilegt og við vonumst til að geta farið hringinn um landið með þetta verkefni. Það er dásamlegt að upplifa Ísland á þennan hátt og kynnast landinu upp á nýtt,“ segir tónlistar- og kvikmyndagerðarkonan Eva Ingolf að lokum.

www.andikristins.com Eva Ingolf er á facebook undir nöfnunum Eva Ingolf og Andi Kristins. Finna má ýmis tónlistaratriði með Evu og Andreu á iTunes, youtube.com og fleiri stöðum á netinu.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert