„Einrúmið er ekki til lengur“

Það var fallegt við Helgafell í gær.
Það var fallegt við Helgafell í gær. Ljósmynd/Guðríður Lára

Guðríður Lára Þrastardóttir hafði hugsað sér að njóta veðurblíðunnar í faðmi fjölskyldunnar við rætur Helgafells í gær þegar dróni sveif yfir þeim í dágóða stund.

„Hann sveimaði yfir okkur. Það var augljóst að það var verið að taka myndir af okkur en hann sveimaði þarna í góða stund. Þetta var mjög sérkennileg upplifun,“ segir Guðríður í samtali við mbl.is.

Hún bætir því við að dróninn hefði flogið það lágt að hann hefði ekki verið þarna í þeim tilgangi að taka yfirlitsmyndir af náttúrufegurðinni á fallegum vetrardegi.

„Ég get ekki gert neina athugasemd við þetta, enda enginn sjáanlegur sem stýrði drónanum. Þá er ekkert auðkennisnúmer sjáanlegt á drónanum svo mögulegt sé fyrir mig að rekja það hver á tækið. Ég veit ekkert hvar myndirnar af okkur munu birtast, hver geymir þær og hvað sá hinn sami ætlar sér að gera við þær,“ skrifar Guðríður um málið á Facebook.

Guðríður segir enn fremur á Facebook að dróninn hafi slegið þau algjörlega út af laginu. „Í þetta skiptið vorum við fullklædd með húfur og vettlinga að leika okkur í snjónum. Næst verðum við kannski á sundfötum með órakaða fætur að drekka bjór fyrir hádegi...eða að gera upp stórkostlegt ósætti þar sem við teljum okkur vera í einrúmi. Einrúmið er ekki til lengur. Ég sakna þess og vil fá það aftur, takk.

Ekki gilda neinar reglur um lágflug dróna en bannað er að fljúga þeim hærra en í 130 metra hæð nema án leyfis frá Samgöngustofu. Auk þess er óheimilt að fljúga þeim innan tiltekinna marka frá flugvöllum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert