Fiðraðir gestir í Sandgerði

Grálóa er algengur flækingur og var áður nefnd strandlóa.
Grálóa er algengur flækingur og var áður nefnd strandlóa. mbl.is/Guðmundur Falk

Fuglalífið á Sandgerðisleirunni hefur verið líflegt í vetur. Guðmundur Falk, fuglaljósmyndari í Sandgerði, fór að fást við fuglaljósmyndun fyrir um þremur árum. Það er enginn skortur á myndefnum í Sandgerði.

„Ég er búinn að fara hratt upp tegundalistann og er kominn í 158 fuglategundir,“ sagði Guðmundur. „Ég stefni á að fara í 180 fuglategundir í vor. Það er rosalega stórt stökk. Í fyrra bætti ég 27 tegundum á listann. Frítíminn minn fer í þetta.“

Morgunblaðið birti í gær mynd Guðmundar af heiðlóum sem halda sig á leirunni og hafa þar nóg að éta. Á sunnudaginn var voru þar tíu heiðlóur að spóka sig.

Fágæt hjálmönd á flakki

Hjálmönd kemur frá Norður-Ameríku og er sjóönd.
Hjálmönd kemur frá Norður-Ameríku og er sjóönd. Ljósmynd/Guðmundur Falk


„Fyrir utan þessar heiðlóur þá eru hér tvær grálóur, sem teljast vera flækingar, en hafa verið hér frá því snemma í haust,“ sagði Guðmundur.

Hjálmönd hefur líka haldið sig í Sandgerði í vetur. Um er að ræða norðurameríska og afar smágerða andartegund. Þetta er í fimmta skipti sem þessi tegund sést hér á landi, að sögn Guðmundar.

„Ég fann þessa önd fyrstur manna á Sandgerðistjörn 9. nóvember í haust,“ sagði Guðmundur. Hann segir að hjálmöndin flakki á milli tjarna og hafi skroppið út í Garð og suður á Stafnes. Þá setjist hún á sjóinn þegar tjarnirnar leggi. Nokkrir fjöruspóar hafa haft vetursetu á Sandgerðisleirunni. Guðmundur segir að sennilega sé fjöruspóinn einn af nýjustu varpfuglum landsins. Menn gruni að upp sé að vaxa íslenskur fjöruspóastofn.

Fjöruspói er vetrargestur hér á landi og hafa nokkrir verið …
Fjöruspói er vetrargestur hér á landi og hafa nokkrir verið í Sandgerði í vetur. Hann hefur einnig orpið hér. Ljósmynd/Guðmundur Falk


Hann segir að nú sé að koma skemmtilegur árstími þegar vorið nálgast í Evrópu og Norður-Ameríku. Þá fara farfuglarnir á kreik og hingað geta komið flækingar yfir hafið, jafnt úr austri og vestri eftir því sem vindar blása.

„Maður er alltaf að vonast til að finna nýja fuglategund fyrir Ísland eða Evrópu. Spennan sem fylgir fuglaskoðun gerir hana svo einstaklega skemmtilega tómstundaiðju,“ sagði Guðmundur.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert