Kröfu knattspyrnudómara hafnað

mbl.is

Héraðsdómur sýknaði í dag Sjúkratryggingar Íslands af kröfu knattspyrnudómara en hann fór fram á það að úrskurður úrskurðarnefndar almannatrygginga og ákvörðun stofnunarinnar um að synja honum um greiðslu bóta vegna slyss sem átti sér stað í mars árið 2012 úr slysatryggingu almannatrygginga verði ógiltur.

Knattspyrnudómarinn var að dæma knattspyrnuleik og sparkaði boltanum til markvarðar með hægri fæti til þess að koma boltanum aftur í leikinn. Hann segist þá hafa fundið fyrir smelli í hægri lærvöðva við sparkið og fengið í kjölfarið mikinn verk. Maðurinn taldi fyrst að einungis væri um tognun að ræða og hafðist ekkert að um sinn þar til hann hafði verið slæmur í fætinum í tæpa þrjá mánuði. Þá leitaði hann til læknis og kjölfar þess kom í ljós rifa í vöðva.

„Það að sparka í fótbolta, jafnvel á móti vindi, er að mati dómsins ekki sambærilegt við það að sparka í eða rekast óvart í eða á stein, vegg eða annan fastan hlut. Fótbolti er eftirgefanlegur og ekki þyngri en svo að honum verður með fæti spyrnt langar leiðir. Vilji stefnanda stóð til þess að senda boltann frá sér með þeim hætti og gerði hann það. Fótboltinn virðist ekki hafa veitt þá mótstöðu að áverkar yrðu á fæti stefnanda eða ristinni sem spyrnt var í hann, sem bendir til þess að snertingin við boltann hafi ekki verið harkalegri en stefnandi mátti búast við miðað við aðstæður,“ segir í niðurstöðum dómsins.

Fyrir vikið sé óútskýrt hvernig meiðsl á lærvöðva mannsins geti verið að rekja einungis til snertingar við boltann. Sönnunarbyrði um hið gagnstæða liggi hjá manninum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert