Neitar ennþá sök

Sakborningurinn í Héraðsdómi Reykjaness.
Sakborningurinn í Héraðsdómi Reykjaness. mbl.is/Eggert

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu telur ekki ástæðu til að láta grænlenska skipverjann, sem grunaður er um að hafa orðið Birnu Brjánsdóttur að bana, sitja lengur í einangrun. Manninum var sleppt úr einangrunarvist í gærdag og hann fluttur í fangelsið á Hólmsheiði.

„Við vorum með úrskurð sem gildir þangað til á morgun, en þetta er undir okkur komið og þegar við teljum að það séu ekki lengur rannsóknarhagsmunir í húfi þá afléttum við einangrun yfirleitt eins fljótt og auðið er,“ segir Einar Guðberg Jónsson, rannsóknarlögreglumaður, í samtali við mbl.is.

Einangruninni var því aflétt tveimur dögum áður en lögreglu var það skylt.

„Við töldum ekki þörf á því að hann sæti lengur í einangrun,“ bætir Einar við. „Við vorum búin að ná utan um það sem hann hefði mögulega geta haft áhrif á, að okkar mati.“

Að sögn Einars neitar hann ennþá sök í málinu.

Verði ekki ákærður

Hinn maðurinn, sem upphaflega var í haldi lögreglu grunaður um aðild að málinu en síðar sleppt, hefur ekki verið kallaður til frekari vitnisburðar.

„Hann var leiddur fyrir dómara áður en hann fór [til Grænlands] og gaf sinn vitnisburð þar, sem er þá bara staðfest skýrsla fyrir dómi. Að öðru leyti hefur ekkert þurft að bera undir hann.“

Aðspurður segir Einar þá að sér sýnist sem sá verði ekki ákærður fyrir aðild að málinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert