Sakar Bjarna um lygar

Björn Leví sakar Bjarna um að hafa logið í viðtali …
Björn Leví sakar Bjarna um að hafa logið í viðtali við RÚV í byrjun janúar en þar sagði hann skýrsluna ekki hafa komið til ráðuneytisins í endanlegri mynd fyrr en eftir að þing fór heim. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Í umræðu um störf þingsins í dag sakaði Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, Bjarna Benediktsson forsætisráðherra um að hafa logið um skýrslu um eignir Íslendinga á aflandssvæðum. Björn Leví sagði tímalínu vegna birtingar skýrslunnar benda til þess að Bjarni hefði logið „af ásettu ráði“. Þá sagði hann ráðherra „tiltölulega vanhæfan“ vegna þessa sem og vegna tengsla sinna við aflandsfélög.

Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfsæðisflokksins, tók þá til máls og sagði ummæli Björns Levís „lítilmannleg“.

„Get ekki orða bundist yfir ræðu háttvirts þingmanns Björns Levís rétt áðan þar sem hann sakar fyrrverandi fjármálaráðherra og núverandi forsætisráðherra um lygar. Hann segir meira en það. Hann segir að forsætisráðherra ljúgi úr þessum stól að yfirlögðu ráði.“

Þá sagðist Ásmundur hafa haldið að gerðar yrðu athugasemdir um „slíkt orðalag í þinginu“ og gagnrýndi þingflokk Pírata fyrir að fara gegn eigin stefnu um breytingar á umræðuhefð á Alþingi.

„Píratar ætluðu að koma á þing til að breyta hefðinni. […] [Píratar] voru á móti því hvernig þingmenn höfðu talað hérna. Okkur sem fórum í þingmannaskólann árið 2013 var sagt að laga umræðuhefðina og við höfum staðið við það, nema Píratarnir sem bera svona á fólk.“

Eftir sérstaka umræðu um framtíðarstefnu í heilbrigðismálum tók Björn Leví aftur til máls og sagði þá að Ásmundur hefði misskilið orð sín, hann hefði ekki sakað Bjarna um að ljúga í ræðustól Alþingis.

„Ég segi að forsætisráðherra hafi logið að yfirlögðu ráði í viðtali við RÚV,“ sagði Björn Leví og óskaði eftir því að Bjarni myndi svara fyrir það hvort hann hefði brotið siðareglur alþingismanna.

Ásmundur gagnrýndi Björn Leví fyrir að saka Bjarna um lygar …
Ásmundur gagnrýndi Björn Leví fyrir að saka Bjarna um lygar úr ræðustól Alþingis. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert