Viðar hlaut viðurkenningu Hagþenkis

Viðar Hreinsson og Jón Yngvi Jóhannsson, formaður Hagþenkis.
Viðar Hreinsson og Jón Yngvi Jóhannsson, formaður Hagþenkis. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Viðar Hreinsson hefur hlotið viðurkenningu Hagþenkis, félags höfunda fræðirita og kennslugagna, fyrir bókina Jón lærði og náttúrur náttúrunnar sem fjallar um „ævintýralegt lífshlaup manns á mörkum forneskju og nútímafræða í samhengi við evrópska vísindasögu.“.

Frá árinu 1986 hefur Hagþenkir árlega veitt viðurkenningu fyrir „fræðirit, námsgögn eða aðra miðlun fræðilegs efnis til almennings“. Í tilkynningu frá félaginu segir að viðurkenningin teljist til „virtustu og veglegustu verðlauna sem fræðimönnum og höfundum kennslugagna getur hlotnast.“.

Viðurkenningarráð Hagþenkis í ár skipuðu þau Baldur Sigurðsson málfræðingur, Guðný Hallgrímsdóttir sagnfræðingur, Kristinn Haukur Skarphéðinsson náttúrufræðingur, Sólrún Harðardóttir námsefnishöfundur og Þórunn Blöndal íslenskufræðingur.

Tíu bækur tilnefndar

Í greinargerð viðurkenningarráðsins um val á fræðiriti kemur fram að þær tíu bækur sem tilnefndar voru í ár hafi verið ólíkar en að allar ættu þær það sameiginlegt að „miðlun efnis var til fyrirmyndar“. Valið var á köflum erfitt en dómnefnd varð sammála um að bókin Jón lærði og náttúrur náttúrunnar eftir Viðar Hreinsson bæri þar af og skyldi því hljóta viðurkenningu Hagþenkis.

Um Jón lærða og náttúrur náttúrunnar segir jafnframt að um sé að ræða „alþýðlega og aðgengilega“ bók þar sem höfundur fer „nýstárlega leið og fjallar jöfnum höndum um Jón lærða, verk hans og samtíð og tekst á látlausan hátt að flétta því saman við tíðaranda 17. aldar og fræðaiðkun hér heima og erlendis.

Listrænar sviðsetningar og tilgátur fleyta frásögninni áfram, án þess að lesendum sé ofboðið. Ávallt er vísað til viðeigandi heimilda eða skýrir fyrirvarar settir af hálfu höfundar þegar hann verður að bregða sér út af hinum þrönga stíg staðreynda til að fylla upp í heildarmyndina.“

Alveg jafnsætt í annað sinn

Er þetta í annað sinn sem Viðar hlýtur viðurkenningu Hagþenkis en hann hlaut hana einnig fyrir ævisögu sína um Stephan G. Stephansson sem kom út árið 2003 í tveimur bindum, Landneminn mikli og Andvökuskáld.

„Það er alveg jafnsætt ef ekki sætara að fá viðurkenninguna í annað sinn,“ segir Viðar en það hefur aðeins einu sinni áður gerst að sami höfundur hljóti viðurkenninguna í tvígang. Var það Helgi Hallgrímsson sem hlaut hana árið 1987 og 2005.

„Ég vissi að ég væri búinn að skrifa bók sem kæmi alveg til greina, en ég var auðvitað í góðum hópi tilnefndra og því var engan veginn sjálfgefið að ég hlyti hnossið,“ segir Viðar þegar hann er inntur eftir því hvort viðurkenningin hafi komið sér á óvart.

Aðspurður segir Viðar að sér þyki sérstaklega vænt um að fá viðurkenningu fyrir bækurnar um Stephan G. og Jón lærða. „Þessar bækur voru mér mikið hjartans mál og metnaðarmál að skrifa góðar bækur um þessa tvo karla. Ég þurfti að berjast fyrir því að fá stuðning og styrki til að geta skrifað bækurnar, því þetta er margra ára verkefni.“

Viðar hlaut fyrst viðurkenningu Hagþenkis árið 2004 fyrir framúrskarandi rit …
Viðar hlaut fyrst viðurkenningu Hagþenkis árið 2004 fyrir framúrskarandi rit á árinu 2003 fyrir ævisögu sína um Stephan G. Stephansson í tveimur bindum, Landneminn mikli og Andvökuskáld. Mynd/Viðar Hreinsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert