Hrúturinn setti undir sig hornin

Hjördís og Stefán hjóla stundum saman á Hondunni hans og …
Hjördís og Stefán hjóla stundum saman á Hondunni hans og þá fær hún að vera hnakkaskraut, en sjálf á hún aðeins eina vespu. mbl.is/Árni Sæberg

Hún er fædd í hrútsmerkinu og gerði eins og sönnum hrúti sæmir, setti undir sig hornin og óð af stað, þegar hún opnaði Bike Cave, kaffihús og veitingastað í Skerjafirði. Ungt fólk sér um að leika þar lifandi tónlist á hverju kvöldi.

„Þetta hefur gengið ljómandi vel og það verða tvö ár í sumar frá því við opnuðum Bike Cave hér í Skerjafirði,“ segir Hjördís Andrésdóttir, en hún og kærasti hennar, Stefán Bachmann Karlsson, eiga og reka kaffihúsið og hjólaviðgerðahellinn Bike Cave við Einarsnes í Skerjafirði.

„Þetta eru mínar æskuslóðir, ég ólst upp hér í Skerjafirði. Ég bjó um tíma í þessu húsi og rak hér verslunina Skerjaver. En þegar ég lokaði búðinni þá ákváðum við, ég og þáverandi maður minn, Stefán Halldórsson, að venda okkar kvæði í kross og breyta húsnæðinu í kryddverksmiðju.

Hjólahellirinn. Litríkur staður þar sem er píanó og viðgerðaraðstaða fyrir …
Hjólahellirinn. Litríkur staður þar sem er píanó og viðgerðaraðstaða fyrir hjólafólk. Þar fæst ýmislegt góðgæti, m.a kjötsúpa sem Hjördís lagar á hverjum degi fyrir gesti sína. mbl.is/Árni Sæberg


Við framleiddum hér kryddblöndur undir heitinu Bezt, í átta ár, en maðurinn minn veiktist alvarlega og ég missti hann árið 2013. Ég hélt kryddverksmiðjunni áfram í smá tíma, en það var allur vindur úr mér, enda hafði þetta verið meira hans en mitt, hann var sá sem hafði brennandi áhuga á kryddum. Ég seldi því kryddverksmiðjuna,“ segir Hjördís sem var á þeim tíma búin að kynnast núverandi kærasta sínum.

Reynd í veitingabransanum

„Við veltum fyrir okkur hvað við ættum að gera við þetta húsnæði og fengum ýmsar hugmyndir frá fólki í kringum okkur, meðal annars að opna dýraleikskóla. En hugmyndin sem varð ofan á var að opna kaffihús og veitingastað fyrir hjólafólk, enda liggur reiðhjólabraut Reykjavíkurborgar hér framhjá húsinu. Auk þess er Stefán mikill mótorhjólakarl og hann hafði lengi látið sig dreyma um veitingastað með mótorhjólaþema.

Það fer ekkert á milli mála þegar komið er að …
Það fer ekkert á milli mála þegar komið er að kaffihúsinu og veitingastaðnum Bike Cave í Skerjafirði í Reykjavík að þar innandyra ræður fólk með mótorhjólaáhuga. mbl.is/Árni Sæberg


Hér bjóðum við upp á viðgerðaraðstöðu fyrir hjólafólk inni á kaffihúsinu og hér eru öll verkfæri og græjur fyrir fólk til að gera við og dytta að hjólum sínum. Þetta er í raun sjálfsþjónusta. Við opnuðum nýlega annan stað eins og þennan í Hafnarfirði, svona hjólahelli eða Bike Cave,“ segir Hjördís og bætir við að það hafi komið sér vel að þau Stefán hafi bæði unnið lengi í veitingabransanum.

„Hann átti og rak veitingastað í Portúgal í mörg ár og hann er mikill smurbrauðssnillingur. Auk þess að sjá um matinn á þessum tveimur kaffihúsum okkar, þá sjáum við líka um að sörvera mat fyrir allskonar uppákomur og fundi. Við getum komið með matarsendingar í fyrirtæki, súpur, brauð og salöt, eða nánast hvaða mat sem fólk getur látið sér detta í hug.“

Þessi tekur á móti gestum sem koma í hjólahellinn, en …
Þessi tekur á móti gestum sem koma í hjólahellinn, en Hjördís og Stefán rákust á hann á uppboðsvef þegar þau fluttu inn tvö mótorhjól frá Hollandi. Gestir geta hengt af sér inni í kistunni. Eins og góðum bötler sæmir þá dettur hvorki né drýpur af honum. mbl.is/Árni Sæberg


Þegar fólk fær ódýran góðan mat, þá kemur það oftar

Það kennir ýmissa grasa í hjólahellinum, þar er meðal annars 120 ára útskorið píanó.

„Við erum líka með píanó á nýja staðnum í Hafnarfirði og hér er lifandi tónlist öll kvöld, krakkar sem eru nemendur í FÍH koma og spila hérna hjá okkur og gestum er líka velkomið að grípa í hljóðfærin. Tveir strákar frá Spáni komu hér um daginn og spiluðu og sungu, þeir voru með gítar með sér, en þeir höfðu verið að halda tónleika í bænum. Vinur þeirra sem býr á Íslandi er fastagestur hjá okkur,“ segir Hjördís og bætir við að erlendir ferðamenn séu daglegir gestir í hjólahellinum hjá henni.

„Það er mjög vaxandi, enda finna ferðamenn það sem þeir leita að á netinu og hér geta þeir til dæmis fengið mjög gott úrval af veganborgurum. Eftirspurn eftir vegan skyndibita er orðin mikil og ég legg mikið upp úr því að hafa matinn ekki dýran, af því ég hef þá skoðun að ef fólk fær ódýran góðan mat, þá komi það oftar.“

Forystuhrúturinn sem Hjördís fékk í fimmtugsafmælisgjöf vekur mikla athygli gesta …
Forystuhrúturinn sem Hjördís fékk í fimmtugsafmælisgjöf vekur mikla athygli gesta og útlendingarnir mynda hann í bak og fyrir. mbl.is/Árni Sæberg


Hjördís segir fólk sem býr í hverfinu stundum koma við hjá henni, en þarna sé þó engin hverfispöbbastemning.

„Fólk kemur meira og verslar til að taka með sér, en ég er með vínveitingaleyfi og sumir setjast inn til að fá sér bjór.“

Ræktar hárlausa ketti

Athygli vekur fagur uppstoppaður hrútshaus uppi á vegg við innganginn en það er saga á bak við hann.

Það fer ekkert á milli mála þegar komið er að …
Það fer ekkert á milli mála þegar komið er að kaffihúsinu og veitingastaðnum Bike Cave í Skerjafirði í Reykjavík að þar innandyra ræður fólk með mótorhjólaáhuga. mbl.is/Árni Sæberg


„Ég fékk hann í fimmtugsafmælisgjöf frá Stefáni, af því að ég er fædd í hrútsmerkinu. Hann hafði samband við Fræðasetur um forystufé á Þórshöfn, en þar eru til í frysti hausar af forystusauðum sem fólk getur valið úr til að láta stoppa upp fyrir sig. Ég er rosalega ánægð með þennan fallega hrút, hann heitir Höfðingi og kemur frá bænum Stað. Hann vekur mikla athygli hér og hefur verið myndaður og snappaður í bak og fyrir, útlendingarnir eru sérstaklega duglegir við það, svo þessi forystusauður hefur á þann hátt ferðast um allan heim,“ segir Hjördís og bætir við að hún eigi líka lifandi dýr, hundinn Pjakk og kettina Trölla og Álfdísi, sem eru hárlausir kettir af tegundinni Sphynx, en hún ræktar slíkar kisur.

Hjördís hellir uppá í kaffihúsinu Bike Cave í Skerjafirði.
Hjördís hellir uppá í kaffihúsinu Bike Cave í Skerjafirði. mbl.is/Árni Sæberg


Vann stanslaust i 365 daga

Hjördís segir að rekstur hjólahellisins hafi verið mikið langhlaup, sennilega tvöfalt maraþon.

„Ég setti bara undir mig hornin og óð af stað, eins og sönnum hrúti sæmir,“ segir hún og hlær. „Þetta hefur verið biluð vinna og erfitt á köflum, sérstaklega núna eftir að við bættum við öðrum stað í Hafnarfirði. Þegar ég vaknaði upp morguninn sem Bike Cave átti eins árs afmæli, hugsaði ég: „Nú hef ég unnið stanslaust í 365 daga.“ En við tókum okkur fimm daga frí í haust og skruppum til Barcelóna og líka í fimm daga til Berlínar um daginn. Það er eina fríið sem við höfum leyft okkur frá því við opnuðum. En þetta er gefandi og þetta er alfarið okkar.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert