Spáð hvassviðri eða stormi í kvöld

Morgunblaðið/Sigurgeir S.

Suðvestanstormurinn sem geisaði á landinu í gærkvöldi og í nótt er nú í rénun, en lægðin sem honum olli heldur nú norður á bóginn og fjarlægist. Vind mun þó ekki ná að lægja almennilega í dag að því er segir á vef Veðurstofunnar.

Suðvestan 15-23 m/s verður í fyrstu og dálitlar skúrir eða él, en dregur úr vindi með morgninum. Strax síðdegis fer hins vegar að bæta í vind þegar næsta lægð nálgast landið og má búast við 10-18 m/s eftir hádegi. því. Hiti verður á bilinu 0 til 5 stig.

Í kvöld má búast við sunnanhvassviðri eða -stormi, 15-23 m/s með rigningu og verður hún í talsverðu magni á vestanverðu landinu. Sunnanáttin er hins vegar hlý og má búast við að hiti fari yfir 10 stig á Austurlandi í nótt, þar verður lítil eða engin rigning. 

Á morgun er útlit fyrir suðvestanhvassviðri eða -storm, en í stað rigningar koma skúrir eða él þegar kólnar smám saman.

Mun skaplegra veður er í kortunum fyrir sunnudaginn, þó að aðeins blási og rigni sunnan- og vestanlands. Það er síðan útlit fyrir rólegt veður á landinu eftir helgi.

Veðurvefur mbl.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert