Fjármagn tryggt fyrir meðferðarheimili

Þorsteinn Víglundsson.
Þorsteinn Víglundsson. Eggert Jóhannesson

Verið er að undirbúa bréf til framkvæmdasýslunnar þar sem þess verður farið á leit að hafinn verði undirbúningur að byggingu nýs meðferðarheimilis fyrir börn á höfuðborgarsvæðinu. Þetta segir Þorsteinn Víglundsson, félags- og jafnréttismálaráðherra, í samtali við mbl.is.

Greint var frá því í útvarpsfréttum Rúv að tryggt hafi verið fjármagn fyrir verkefninu.

Að sögn Þorsteins hefur málið verið til skoðunar í nokkur ár og ítrekað hefur verið bent á þörfina fyrir úrræði sem þetta, en nú sé það vonandi að komast á framkvæmdastig.

„Málið stóð þannig að það var búið að tryggja fjármagn, upprunalega var óskað eftir því að það yrði kannað hvort fyndist eitthvert notað húsnæði á höfuðborgarsvæðinu sem gæti hentað undir þessa starfsemi og það var auglýst eftir slíku húsnæði,“ segir Þorsteinn. Það hafi ekki skilað árangri og því verði ráðist í nýbyggingu húsnæðis undir starfsemina.

Bygging húsnæðisins kostar 500 milljónir og er áætlaður rekstrarkostnaður 150 milljónir á ári. „Þetta er sú kostnaðaráætlun sem lögð var á byggingu þessa heimilis upprunalega,“ segir Þorsteinn, spurður út í kostnaðinn við verkefnið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert