Á góðri leið með að fá heimili

Tjúasveitin (f.v.): Ísól, Heba, Mikki og Max. Á myndina vantar …
Tjúasveitin (f.v.): Ísól, Heba, Mikki og Max. Á myndina vantar Heru.

Dýrahjálp Íslands hafa borist fjölmargar fyrirspurnir um Tjúasveitina svokölluðu sem sagt var frá í Morgunblaðinu í dag. „Mikki og Max eru komnir mjög langt með það að fá heimili,“ segir Sonja Stefánsdóttir, sjálfboðaliði hjá Dýrahjálp og umsjónarmaður hundanna, í samtali við mbl.is.

Dýrahjálp hóf nýverið söfnun fyrir dýralæknakostnaði vegna Chihuahua-hundanna Ísólar, Hebu, Mikka, Max og Heru sem skipa Tjúasveitina en þá vantar alla heimili. Flestar umsóknir hafa borist í Mikka sem er yngstur en Sonja segir einhverja ætla koma og heimsækja Ísól í dag og á næstu dögum.

„Við erum síðan enn að reyna að ákveða hvort Heba og Hera eigi að vera saman. Það var planið en sú sem fóstrar þær var núna að segja að  þær myndu örugglega standa sig vel í sitt hvoru lagi.“

Þegar Dýrahjálp fékk til sín hundana fimm þurftu þeir á mikilli umönnun að halda. Þeir voru með of langar klær, flækj­ur og skít­ug­ir og þurftu að fara í snyrt­ingu. Í heilsu­fars­skoðun kom síðan í ljós að fjór­ir af fimm þurftu að fara í tann­hreins­un og tann­tök­ur.

„Það þurfti rönt­gen­mynd­ir af þeim og svo voru sum­ir það gaml­ir að þeir þurftu að fara í blóðpruf­ur áður en þeir voru svæfðir þannig að kostnaður­inn safnaðist hratt sam­an,“ sagði Sonja í samtali við Morgunblaðið í morgun.

Dýra­hjálp stend­ur því fyr­ir söfn­un til að borga fyr­ir dýra­lækna­kostnaðinn, sem er yfir hálfri millj­ón. Átakið fór vel af stað og söfnuðust höfðu 195.000 krónur í gær en í samtali við mbl.is sagðist Sonja ekki vera komin með nýjustu tölur. Hægt er að leggja inn á reikn­ing Dýra­hjálp­ar 0513-26-4311, kt. 620508-1010 og skrifa „Tjúa­sveit­in“ í at­huga­semd.

Þeir sem hafa áhuga á að taka meðlimi Tjúasveitarinnar að sér geta sótt um á vef Dýrahjálpar Íslands.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert