Kvartað yfir fjarveru Bjartar

Björt Ólafsdóttir umhverfisráðherra.
Björt Ólafsdóttir umhverfisráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Fyrirkomulagið er með þeim hætti að það er ekki algengt að þingmenn eigi þess kost að ræða við hæstvirta ráðherra,“ sagði Svandís Svavarsdóttir, þingmaður Vinstri grænna á Alþingi í dag og vísaði þar til fjarveru Bjartar Ólafsdóttur, umhverfis- og auðlindaráðherra. Björt hafði boðað hafði forföll með stuttum fyrirvara og þótti þingmönnum bagalegt að hún væri fjarverandi þegar alvarlegt mengunarmál þurfi að ræða.

Svandís var fyrst margra þingmanna sem kvöddu sér hljóðs undir liðnum fundarstjórn forseta og kvörtuðu yfir óútskýrðri fjarveru Bjartar. Sögðu þeir bagalegt að ráðherra sæti ekki fyrir svörum þegar svo stórt og alvarlegt mál þyrfti að ræða, líkt og það sem upp er komið í tengslum við mengun frá verksmiðju United Silicon. „Hér er um að ræða ráðherra sem er í eldlínunni núna vegna United Silicon,“ sagði Svandís jafnframt.

„Það er óviðunandi að ráðherra umhverfismála sjái sér ekki fært að mæta,“ sagði Ásta Guðrún Helgadóttir, þingmaður Pírata. Upp væri komið alvarlegt mengunarmál og við því þurfi svör og ráðherra þurfi að bregðast við.

„Málið er brýnt og hvílir þungt á,“ sagði þá Silja Dögg Gunnarsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, og óskaði hún eftir svörum vegna fjarveru ráðherrans. „Hvers vegna er ráðherra ekki hér í dag til að svara spurningum okkar?“

Það vildu þingmennirnir Kolbeinn Óttarsson Proppé, Ari Trausti Guðmundsson, Logi Einarsson, Halldóra Mogensen, Smári McCarthy og Birgitta Jónsdóttir einnig vita en ekki fengust skýringar á fjarveru ráðherra frá þingforseta.

Ekki náðist í ráðherra við vinnslu fréttarinnar en aðstoðarmaður Bjartar, Steinar Kaldal, sagði í samtali við mbl.is að sjálfur hafi hann ekki heyrt í ráðherra í dag. Hún hafi verið á fundum í allan dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert