Dósasöfnun er della Guðna

Guðni Guðmundsson þræðir helstu leiðir á Suðurlandi og tínir upp …
Guðni Guðmundsson þræðir helstu leiðir á Suðurlandi og tínir upp verðmætin sem liggja í grasinu. mbl.is/Sigurður Bogi

„Sjálfsagt væri oft tími til heimspekilegra hugleiðinga á þessu rölti en ég kýs frekar að njóta útiverunnar og teyga að mér súrefni. Bíð svo eftir því að finna næstu dollu – rétt eins og veiðimaðurinn er spenntur eftir því að fiskur bíti á öngulinn,“ segir Guðni Guðmundsson, sem býr á bænum Þverlæk í Holtum í Rangárvallasýslu.

Á Suðurlandi má oft sjá eldri manni bregða fyrir þar sem hann gengur meðfram veginum og horfir fránum augum fram fyrir sig. Guðni á Þverlæk veit af fenginni reynslu að víða er verðmæti að finna og að kynstrin öll af flöskum og dósum liggja í vegabrúnum. Hann tínir þær allar upp og setur í poka. Jafnframt fer hann heim á bæi ef fólk þarf að losa sig við dósir sem aðrir setja í söfnunargáma sem eru víða í Holtum og Landsveit. Allt í allt náði Guðni um 75.000 stykkjum í fyrra og fyrir hvert og eitt greiða endurvinnslustöðvar 16 krónur og safnast þegar saman kemur. Þetta gerir 1,2 milljónir króna og hver einasti eyrir fer til Íþróttafélagsins Garps, sem starfar í sveitunum í vestanverðu Rangárþingi.

„Ég byrjaði á þessu fyrir ellefu árum. Núna þegar þú hittir mig hef ég verið á gangi í klukkustund, er kominn með 35 flöskur og dósir af um það bil fjórum kílómetrum. Það er svona heldur í lægri kantinum, á öðrum svæðum er oft mun meira að finna. Oft skilar jafn langur spotti og ég tók núna 80 til 90 stykkjum,“ segir Guðni þegar blaðamaður Morgunblaðsins hitti hann á röltinu skammt austan við Þjórsá um helgina. Þá var kaldi í loftinu og svolítill næðingur, sem Guðni lét þó ekkert bíta á sig. Söfnunarstarfið er hans líkamsrækt.

Góð þátttaka er í íþróttastarfi Garps, sem á bakland sitt í Laugalandsskóla í Holtum. Nærri lætur að helmingur tekna félagsins sé flöskupeningarnir frá Guðna á Þverlæk og fyrir vikið hefur verið hægt að halda uppi nokkuð öflugu íþróttastarfi í sveitinni, það er í frjálsum íþróttum og glímu. „Krökkunum hefur gengið vel á mótum Héraðssambandsins Skarphéðins og þeir hafa einnig spjarað sig vel á landsvísu, enda höfum við ágæta þjálfara,“ segir Guðni.

Frá Reykjavík að Markarfljóti

En aftur að flöskusöfnuninni.

Svæðið við þjóðveg 1, sem Guðni hefur undir, er frá Markarfljóti í austri og út á Selfoss. Og jafnvel meira, lengst til vesturs við hringveginn hefur Guðni náð að Gunnarshólma sem er nærri Lækjarbotnabrekkunni, skammt ofan við Reykjavík. Auk þess sem hann þræðir kanta margra annarra vega á Suðurlandi, en séð af korti mætti líkja vegakerfinu þar við þéttriðinn kóngulóarvef.

„Ég fer oft út í kringum hádegið og næ kannski 35 til 40 kílómetrum á fjórum til sex klukkustundum. Þarf svo að vera kominn aftur heim undir kvöldið þegar farið er í fjósið. Reglan hjá mér er annars sú að við hringveginn leita ég dósa á þriggja mánaða fresti en við aðra vegi dugar að fara einu sinni á ári,“ segir Guðni, sem á síðasta ári fékk Umhverfisverðlaun Ungmennafélags Íslands fyrir „ötult starf að umhverfismálum fyrir samfélagið,“ eins og komist var að orði þegar viðurkenningin var afhent við hátíðlega athöfn.

„Daufur er dellulaus maður“

„Jú, það hafa margir spurt mig um ferðakostnaðinn,“ segir Guðni „Ég hef hins vegar lagt þetta þannig niður fyrir mig að bensínreikningurinn vegna flöskuferðanna sé svipaður og utanlandsferð í eina viku myndi kosta. Til útlanda langar mig ekki. Flöskusöfnunin er hins vegar sport sem varir allt árið og fín hreyfing, þetta er í þágu umhverfisins og skilar svo íþróttastarfi og samfélagi hér í sveitinni heilmiklu. Það má ýmist kalla þetta áhugamál eða dellu – og sumir segja að daufur sé dellulaus maður,“ segir Guðni og er rokinn af stað áfram í söfnuninni.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert