„Helmingurinn hérna inni vill ríða þér“

Stefanía Svavarsdóttir tónlistarkona segist hafa upplifað sig sára og vanmáttuga …
Stefanía Svavarsdóttir tónlistarkona segist hafa upplifað sig sára og vanmáttuga að aðrir hafi látið hegðun mannsins viðgangast. Ljósmynd/Anton Bjarni

„Ég er búin að vera í tónlistarbransanum frá því að ég byrjaði að spila með Stuðmönnum 16 ára og get eiginlega talið á fingrum mér hversu oft ég hef fengið einhver komment sem stinga mig,“ segir tónlistarkonan Stefanía Svavarsdóttir sem hefur starfað í tónlistargeiranum sl. 10 ár.

Frá­sögn tón­list­ar­kon­unn­ar Sölku Sólar Ey­feld á Twitter nú um helg­ina, af því þegar maður kleip hana í rass­inn rétt áður en hún steig á svið á árs­hátíð Icelanda­ir, hef­ur vakið mikla at­hygli. Það til­vik er hins veg­ar ekk­ert eins­dæmi og á fleira tónlistarfólk svipaða sögu að segja, m.a. Elísabet Ormslev sem sagði mbl.is sína sögu.

Stefanía kveðst oftast reyna að leiða slíkar athugasemdir hjá sér, til að mynda þegar reynt er að hafa áhrif á það hvernig hún lítur út eða klæðir sig. Hún er hins vegar ekki tilbúin að horfa fram hjá ömurlegri uppákomu sem hún lenti í nýlega þegar hún fór út á land með hópi um 20 karla í tónlistarbransanum til að spila á þrennum tónleikum.

Sagðist vera með leynitól sem ég þyrfti að vita af

 „Mig langar að taka fram að í þessi tíu ár sem ég hef verið í bransanum þá hafa eiginlega allir sem ég vinn með komið vel fram og ég hef almennt ekki upplifað kynferðislega áreitni frá samstarfsfólki, þó að ég vinni að mestu leyti bara með karlmönnum.“

Að þessu sinni var hins vegar með í för einn maður sem Stefanía segist ekki hafa unnið með áður. „Hann var með kynferðislegar athugasemdir við mig frá fyrstu æfingu og fram á síðasta gigg,“ segir hún. Eftir að hafa minnt hana á á fyrstu æfingu að þau hefðu hist áður sem hún játaði að muna, sagði hann: „Við erum nú ekki búin að sofa saman, ef þú ert búin að gleyma því.“

„Síðar um kvöldið fóru karlarnir að ræða typpastærðir, sem þeir mega alveg gera í friði mín vegna, og þá sagðist hann vera með eitt leynitól sem ég þyrfti að vita af. Því næst rak hann út úr sér tunguna sem var óvenjulöng og sagði: „Já þú bara veist af þessu núna“.“

Stefanía segir athugasemdirnar hafa haldið áfram að hrannast upp alla ferðina. „Þegar við biðum bæði baksviðs fyrir eina tónleikana, þar sem um 1.000-1.500 áhorfendur biðu frammi í sal, sagði hann við mig: „Stefanía þú gerir þér grein fyrir því að helmingurinn hérna inni vill ríða þér og hinn helmingurinn hatar þig og það eru konurnar“.“  

Allir sammála um að þetta væri ekki í lagi

Hún segist hafa upplifað sig sára og vanmáttuga yfir að enginn þeirra sem voru með í för skyldu standa upp fyrir hana. „Þetta eru allt vinir mínir og félagar og það hefði verið gott að fá eitt komment frá einhverjum um að þetta væri ekki alveg í lagi.“

Hún hafi í kjölfarið farið að velta því fyrir sér hvort þeir tækju ekki eftir þessu, heyrðu ekki, væru að hunsa þetta og þá mögulega til að gera athugasemdum mannsins ekki hátt undir höfði. „Svo spurði ég sjálfa mig líka að því hvort þeir væri að leyfa þessu að viðgangast af því að ég væri ekki með uppsteyt.“

Stefanía kveðst því hafa talað við þá þegar þessi einstaklingur var ekki á staðnum. „Og þá voru allir sammála mér, hneyksluðust og sögðu hegðun hans ekki eiga heima á þessari öld. En það sagði enginn neitt á meðan hann lét þessi orð falla.“

Grænt ljós á að vera kynferðislegur við mig á sviði

Stefanía ítrekar að hún upplifi þessa félaga sína alla jafna sem jafnréttissinna sem komi vel fram við sig og aðrar konur. „Ég upplifi sárasjaldan kynferðislegar athugasemdir frá samstarfsfólki.“

Hún minnist þess þó frá þeim tíma er hún var sextán ára að syngja á balli með Stuðmönnum að þá hafi söngvari sem hún leit mikið upp til dregið hana til hliðar í hléi og sagt: „Ég veit að þú ert ung og óreynd, en það verður að vera meira „sex appíl“  á milli okkar á sviðinu. Hún ítrekar að þarna sé hún ekki að tala um Egil Ólafsson, söngvara Stuðmanna, enda hafi hljómsveitin alla tíð reynst henni vel. „Þegar hún féllst hins vegar á beiðni áðurnefnds söngvara, „þá fannst honum hann vera með grænt ljós á að vera kynferðislegur við mig uppi á sviði.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert