Ímynd og orðspor fyrirtækisins í húfi

Silja Dögg Gunnarsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins.
Silja Dögg Gunnarsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Ég hef verulegar áhyggjur af starfsemi United Silicon í Reykjanesbæ. Nú berast stöðugt fréttir af mengun frá kísilverinu og að laun starfsmanna samræmist ekki þeim væntingum sem bæjarbúar höfðu þegar fyrirtækið var að koma sér fyrir í bæjarfélaginu.“

Þetta segir Silja Dögg Gunnarsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, á Facebook-síðu sinni í dag. Þetta séu slæmar fréttir sem beri að hennar mati það með sér að forsvarsmenn fyrirtækisins hafi ekki lagt metnað í að gera hlutina nægilega vel í sátt við samfélagið.

„Það er gríðarlega mikilvægt að fyrirtæki af þessari stærðargráðu vinni markvisst samkvæmt gildum um samfélagslega ábyrgð. Það þarf að ríkja traust milli fyrirtækis og samfélags og það næst m.a. með því að fyrirtækið gæti vel að mengunarvörnum, gefi greinargóðar upplýsingar og síðast en ekki síst komi vel fram við starfsmenn með sanngjörnum launum og góðum aðbúnaði. Ímynd og orðspor fyrirtækis getur haft úrslitaþýðingu um hvort það lifi áfram og eins og margir vita er erfitt og jafnvel ómögulegt að endurvinna skaðað orðspor.“

Segist Silja vona að United Silicon geri úrbætur á búnaði sínum þannig að starfsemin geti haldið áfram. Segist hún treysta því að Umhverfisstofnun sinni hlutverki sínu áfram vel hvað eftirlit varði.

„Ég batt vonir við þetta fyrirtæki, trúði því að þeir myndu byggja upp traust fyrirtæki og sýna samfélagslega ábyrgð. Slíkt fyrirtæki er mikilvægt hvað varðar afkomu bæjarfélagsins og áframhaldandi uppbyggingu Helguvíkurhafnar. Því þætti mér sárt að sjá ef menn ætla að klúðra þessu tækifæri, og þá á ég við forsvarsmenn US.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert