Viltu vinna eina og hálfa milljón?

Við heitan foss sem rennur úr Vaðlaheiðargöngum Eyjafjarðarmegin. Frá vinstri: …
Við heitan foss sem rennur úr Vaðlaheiðargöngum Eyjafjarðarmegin. Frá vinstri: Valgeir Bergmann, framkvæmdastjóri Vaðlaheiðarganga, Albertína Friðbjörg Elíasdóttir, framkvæmdastjóri Eims og Jón Steindór Árnason, frá Íslenskum verðbréfum. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Lumar þú á snjallri hugmynd um hvernig hægt er að nýta lághitavatn á Norðurlandi eystra? Þá gætirðu eignast eina og hálfa milljón króna. Blásið hefur verið til hugmyndasamkeppni, með áherslu á nýtingu heita vatnsins í Vaðlaheiðargöngunum, en hitastig og vatnsmagn þar er nokkuð stöðugt; 110 lítrar 46 gráðu heits vatns renna á sekúndu úr göngunum, ónýttir til sjávar.

Lághitavatn er það kallað sem ekki nær 150 gráðu hita.

Að hugmyndasamkeppninni standa EIMUR (samstarfsverkefni sem snýr að bættri nýtingu orkuauðlinda og aukinni nýsköpun í orkumálum á Norðurlandi eystra), Íslensk verðbréf og Vaðlaheiðargöng ehf.

Engar skorður eru settar varðandi það hverskonar nýting er lögð til en stefnt að því að fá fram sem fjölbreyttastar hugmyndir.

Eitt af markmiðum EIMS  er að stuðla að aukinni sjálfbærni samfélaga á Norðurlandi eystra með bættri nýtingu auðlinda og þykir vatnið í Vaðlaheiðinni mjög gott dæmi um auðlind sem ekki ætti að láta fara til spillis. Fjölmargar hugmyndir hafa komið fram um mögulega nýtingu á vatninu í Vaðlaheiðinni en aðstandendur hugmyndasamkeppninnar vilja með henni leggja sitt af mörkum til að auka líkurnar á að vatnið verði nýtt. Sambærilegar ónýttar lághitaauðlindir liggja víðsvegar um svæðið og verður þess vegna einnig opið á að skila inn hugmyndum um nýtingu þeirra.

Hugmyndasamkeppnin er öllum opin. Heildarupphæð verðlauna eru tvær milljónir króna, þar af munu fyrstu verðlaun ekki verða lægri en ein og hálf milljón. Skilafrestur er til  22. maí. 

Nánari upplýsingar má sjá á heimasíðu EIMS, www.eimur.is

Nokkuð mörg lághvitasvæði eru á norðausturlandi, hér merkt með litlum, …
Nokkuð mörg lághvitasvæði eru á norðausturlandi, hér merkt með litlum, bláum punktum.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert