Ásetningurinn kemur á óvart

Vilhjálmur Bjarnason, annar frá hægri á fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar …
Vilhjálmur Bjarnason, annar frá hægri á fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis í dag. mbl.is/Golli

Vilhjálmur Bjarnason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, er ánægður með að skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis vegna sölunnar á 45,8% eignarhlut ríkisins í Búnaðarbanka Íslands árið 2003 sé komin fram.

„Ýmislegt þarna reynist rétt um það sem grunur minn lék á hér á árum áður. En það kemur á óvart að það sé svona staðfastur ásetningur og að þarna koma í það minnsta tveir bankar að málum við að dylja og ljúga. Það er lítill vilji hjá stjórnvöldum framan af til þess að komast að hinu rétta í þessu máli,“ sagði Vilhjálmur að loknum fundi með stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis vegna skýrslunnar. Þar sat formaður rannsóknarnefndar Alþingis, Kjartan Bjarni Björgvinsson, fyrir svörum og gerði grein fyrir skýrslunni.

Vilhjálmur bætti við að í skýrslunni komi fram niðurlægjandi ummæli þáverandi ráðherra um sig. „Að vísu vantar bestu setningu ráðherrans um mig, að þessi maður væri bara aðjúnkt [við Háskóla Íslands]. En að öðru leyti er ég ánægður með skýrsluna.“

Að sögn Vilhjálms snýst stóra spurningin núna um skuldaskil Kaupþings og Arion banka við „tiltekinn einstakling“ og hvernig þau fóru fram. „Hvað hann bar úr býtum og hvort hann hélt áfram að snúa á samfélagið. Ég tel að þau skuldaskil séu rannsóknarefni líka.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert