Byrjað að hleypa inn í flugstöðina

Fólk bíður átekta í innritunarsalnum. Hleypt verður aftur inn á …
Fólk bíður átekta í innritunarsalnum. Hleypt verður aftur inn á næstu mínútum. mbl.is/Svali

Byrjað er að hleypa aftur inn í flugstöð Leifs Eiríkssonar, segir Guðni Sigurðsson, upplýsingafulltrúi ISAVIA. Búið er að ganga úr skugga um að flugstöðin sé mannlaus og í kjölfarið var framkvæmd leit á svæðinu, en farið er eftir ströngustu reglum um flugvernd. 

Mannleg mistök urðu til þess að farþegar fóru inn í flugstöðina án þess að fara í gegnum öryggisleit og þurfti því að rýma flugstöðina og framkvæma öryggisleit á öllum farþegum að nýju. Guðni man ekki til þess að sams konar atvik hafi komið upp á flugstöðinni. Rýmingin er framkvæmd í samstarfi við Samgöngustofu sem hefur eftirlit með framkvæmdinni.

Guðni segir að hleypt hafi verið aftur inn í flugstöðina um klukkan sex og fljótlega muni skýrast hversu mikil seinkun verður á flugi frá vellinum. Nákvæm tala um fjölda flugfarþega sem verða fyrir seinkunum af völdum rýmingarinnar liggur ekki fyrir, en Guðni giskar á að þeir séu um tvö til þrjú þúsund talsins.

Uppfært 18:05 með nýjustu upplýsingum um stöðu mála

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert