Næstum „of fjölbreytt“ dagskrá

Hammondhátíðin í Djúpavogi fer fram í apríl.
Hammondhátíðin í Djúpavogi fer fram í apríl. mbl.is/Golli

„Dagskráin hefur aldrei verið jafn fjölbreytt en við viljum ná til sem flestra. Sumir segja að hún sé eiginlega of fjölbreytt,“ segir Ólafur Björnsson, framkvæmdarstjóri Hammondhátíðar Djúpavogs, sem haldin er dagana 20.- 23. apríl næstkomandi. 

Meðal þeirra sem fram koma á hátíðinni í ár eru Emmsjé Gauti, Dikta, Mugison, Langi Seli & skugganir og Föstudagslögin. Tónleikar fimmtudags, föstudags og laugardags fara fram á Hótel Framtíð en lokatónleikarnir á sunnudeginum eru haldnir í Djúpavogskirkju.

Eins og nafnið gefur til kynna er hammondorgelið í hávegum haft og markmiðið að hljóðfærið sé notað við allan tónlistarflutning á hátíðinni. „Við förum samt ekki fram á að það verði hammond sóló í hverju einasta lagi,“ segir Ólafur.

Tónlistarmaðurinn Emmsjé Gauti verður á Hammondhátíðinni.
Tónlistarmaðurinn Emmsjé Gauti verður á Hammondhátíðinni.

Getur sett „mottu“ yfir hvað sem er 

Hann segist spenntur að sjá hvernig tónlistarfólkið muni spreyta sig á hljóðfærinu. Það eigi vel heima í hinum ólíku tónlistarstefnum meðal annars í nýbylgju rappi eins og hann nefnir tónlist rapparans Emmsjé Gauta, þó það sé alla jafna ekki fyrirferðamikið í tónlistarsköpun hans.  

„Það er hægt að framkvæma ótrúlega flotta tóna með þessu hljóðfæri,“ segir Ólafur og tekur fram að tónlistarfólkið, sem kemur fram á hátíðinni, eigi eftir að leika sér að því. Hann viðurkennir að nokkrir tónlistarmenn sem hann hafi haft samband við og óskað eftir að myndu taka þátt hefði verið hissa á að þeim væri boðin þátttaka á hátíð tileinkað hammond.

Þeirra á meðal voru Stefán Jakobsson og Andri Ívars sem saman mynda dúettinn Föstudagslögin. „Þeir hváðu við,“ segir hann og hlær. Hann er sannfærður um að flutningur þeirra verði góður og bætir við „fær hammondleikari getur sett mottur yfir hvaða lög sem er.“ 

Tónlistarmaðurinn Mugison verður á Hammondhátíðinni.
Tónlistarmaðurinn Mugison verður á Hammondhátíðinni.

Miðasalan hefur aldrei farið jafn vel af stað

Miðasalan hefur aldrei farið jafn vel af stað eins og núna, að sögn Ólafs. Þetta er í 12. sinn sem hátíðin fer fram en hún var fyrst haldin árið 2006. Hann segir að það gangi hratt á helgarpassana. „Það fer eiginlega hver að verða síðastur,“ segir hann. Á þessum fjórum dögum verða í boði 1100 sæti í heildina á tónleikana sem fara fram bæði í Djúpavogskirkju og á hótel Framtíð. 

Hátíðin hefur stækkað jafnt og þétt undanfarin ár. Hann tekur fram að fjölmargir gistimöguleikar séu á svæðinu en gistirými hefur fjölgað í takt við uppbyggingu ferðaþjónustunnar á svæðinu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert