Taki afstöðu til samnings við Ólaf

Þór Saari, fyrrverandi þingmaður.
Þór Saari, fyrrverandi þingmaður. mbl.is/Ómar Óskarsson

Þingmaðurinn fyrrverandi, Þór Saari, hefur hvatt Pírata til að taka afstöðu til samnings Reykjavíkurborgar við fasteignafélagið Festi ehf., sem er í eigu Ólafs Ólafssonar, fjárfestis, um lóðir og byggingar í Vogahverfi  í ljósi niðurstöðu skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um söluna á eignarhlut ríkisins í Búnaðarbanka Íslands árið 2003.

„Fulltrúi Pírata í borgarstjórn er hluti af meirihlutanum og það er full ástæða til að hvetja hann til að segja sig frá því samstarfi ætli meirihlutinn í borgarstjórn ekki að rifta samningnum við Ólaf um lóðir og byggingar í Vogahverfi,“ skrifar Þór á Pírataspjallinu á Facebook. 

„Hér er um að ræða samning við dæmdan svikahrapp sem fékk fjögurra og hálfs árs fangelsi fyrir fjárglæfra og svik og væri Búnaðarbankafléttan ekki fyrnd yrði hann ugglaust dæmdur aftur í fangelsi,“ skrifar hann.

Ummæli Þórs á Pírataspjallinu:

„Hvet Pírata til að taka skýlausa afstöðu til samnings borgarinnar við Ólaf Ólafsson í ljósi niðurstöðu skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um svikamylluna sem hann og fleiri settu upp vegna kaupa sinna á Búnaðarbankanum. Fulltrúi Pírata í borgarstjórn er hluti af meirihlutanum og það er full ástæða til að hvetja hann til að segja sig frá því samstarfi ætli meirihlutinn í borgarstjórn ekki að rifta samningnum við Ólaf um lóðir og byggingar í Vogahverfi. Hér er um að ræða samning við dæmdan svikahrapp sem fékk fjögurra og hálfs árs fangelsi fyrir fjárglæfra og svik og væri Búnaðarbankafléttan ekki fyrnd yrði hann ugglaust dæmdur aftur í fangelsi. Einnig er mikilvægt að Píratar myndi sér afstöðu varðandi fyrningarákvæði laga, sem fyrst og fremst virðast sett til að vernda sérstaka tedund glæpona hverrra mál tekur mörg ár að rannsaka.“

Ólafur Ólafsson hefur einnig komið að fjárfestingum í Héðinsreitnum í Reykjavík. 

Borgarfulltrúar svara

Líf Magneudóttir, borgarfulltrúi Vinstri grænna og forseti borgarstjórnar, svarar Þór á Pírataspjalinu:

„ Og hvert væri tilefnið? Að hann er dæmdur glæpamaður sem hefur setið af sér? Að borgin á ekki í viðskiptum við fólk með vafasama fortíð eða flekkað mannorð? Eða siðleysingja? Eða að borgin fari í manngreiningarálit þegar það kemur að framkvæmdum eða lóðasölu eða veitingu þjónustu? Það er auðvitað ekki hægt - ekki frekar en við mismunum fólki eftir kynferði, trúarbrögðum eða kynhneigð.“

Halldór Auðar Svansson, borgarfulltrúi Pírata, bætir því við að umræddir samningar hafi verið samþykktir af öllum fulltrúum í borgarráði.

„Ábyrgðin liggur því ekki eingöngu hjá flokkunum sem mynda meirihluta og því á tal um að Píratar eigi að rifta meirihlutasamstarfi vegna þessa frekar illa við.“

Ólafur Ólafsson, til vinstri.
Ólafur Ólafsson, til vinstri. mbl.is/Ómar Óskarsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert