Verði knúnir til að segja sannleikann

Kjartan Bjarni Björgvinsson, formaður rannsóknarnefndar Alþingis, svaraði spurningum stjórnskipunar- og …
Kjartan Bjarni Björgvinsson, formaður rannsóknarnefndar Alþingis, svaraði spurningum stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar. mbl.is/Golli

Draga má þann lærdóm af sölu ríkisins á 45,8% eignarhlut ríkisins í Búnaðarbanka Íslands árið 2003 að ákvæði séu til í íslenskum lögum sem geti knúið þá aðila sem komi að slíkum kaupum til að segja sannleikann. Þetta sagði Kjartan Bjarni Björgvinsson, formaður rannsóknarnefndar Alþingis, sem rannsakaði þátttöku þýska bankans Hauck & Aufhäuser í  kaupum á eignarhlutnum.

„Boltinn er hjá löggjafanum um stefnumörkun í þessu,“ sagði Kjartan er hann svaraði spurningu Jóns Þórs Ólafsson, þingmanns Pírata, á fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis.

Kjartan Bjarni bætti við að heimildirnar til þess að knýja á um svör hafi ekki verið nógu skýrar og afdráttarlausar. Fjármálaeftirliti hafi óskað eftir upplýsingum um hvort eignarhaldið á hlutnum hefði verið annað en fram kom en þær upplýsingar hafi ekki verið veittar.

Svandís Svavarsdóttir, þingmaður Vinstri grænna, spurði hvað mönnum hafi gengið til með því að leyna eignarhaldinu á eignarhlutnum. „Það kemur ekkert fram í hvaða tilgangi það var gert í skýrslunni. Þar segir að það var mjög einbeittur ásetningur til þess og lögð rík áhersla á að það væri engum sagt frá þessum ráðagerðum nema þeim þrönga hópi sem stóð að málinu,“ svaraði Kjartan.

Hann sagði einnig að nefndin hafi ekki velt fyrir sér hvort brotin hafi verið lög við söluna á hlutnum. Ef eitthvað saknæmt hafi átt sér stað séu þau brot núna fyrnd.

Frá fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis í dag.
Frá fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis í dag. mbl.is/Golli

Kjartan lýsti yfir vonbrigðum með að þýska fjármálaeftirlitið hafi ekki viljað aðstoða við rannsóknina og sagði að ein ósvöruð spurning standi eftir að henni lokinni, þ.e. eignarhaldið á aflandsfélaginu Dekhill Advisors Limited, sem fékk 46,5 milljónir Bandaríkjadala greiddar af bankareikningi aflandsfélagsins Welling & Parters sem var skráð á Tortóla.

„Nefndin hefur ekki óhyggjandi gögn um það hverjir það hafi verið,“ sagði hann en nefndi að Kaupþing hafi borið alla áhættu af samningunum og leiða mætti líkur að því að félagið eða einhverjir tengdir því hafi notið ávinningsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert