Vísar tali um blekkingar á bug

Ólafur Ólafsson kaupsýslumaður.
Ólafur Ólafsson kaupsýslumaður. mbl.is/Ómar Óskarsson

Kaup S-hópsins svokallaðs á 45,8% hlut ríkisins í Búnaðarbankanum í ársbyrjun 2003 voru ekki háð mögulegri erlendri þátttöku í kaupunum. Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá Ólafi Ólafssyni kaupsýslumanni vegna umfjöllunar í dag um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um aðkomu þýska bankans Hauck & Aufhäuser að kaupunum.

Ólafur bendir á að S-hópurinn hafi komið best út í mati HSBC bankans sem verið hafi ríkinu til ráðgjafar óháð mögulegri erlendri aðkomu. Vísar hann í bókuð ummæli Ólafs Davíðssonar, formanns einkavæðinganefndar, á fundi nefndarinnar 28. ágúst 2002 um að ekki væri áskilið að erlendir aðilar kæmu að viðskiptunum.

„Það er óábyrgt af Kjartani Bjarna Björgvinssyni, stjórnanda rannsóknarinnar, að segja að erlend aðkoma hafi verið grundvallarforsenda þegar það liggur alveg ljóst fyrir að hún var ekki skilyrði,“ segir Ólafur. Kaupverðið hafi að fullu verið greitt og ríkið ekki borið skarðan hlut frá borði. Ennfremur hafi verið staðið við öll skilyrði í kaupsamningnum.

„Samkvæmt lögum var þýski bankinn lögmætur hluthafi í Eglu hf., hann innti af hendi hlutafjárframlag sitt eins og áskilið var og bar skyldur samkvæmt gerðum samningum. Það sem á fundi rannsóknarnefndar voru nefndir baksamningar voru samningar milli einkaaðila og höfðu engin áhrif á niðurstöðu í sölu ríkisins á hlut sínum í Búnaðarbankanum.“

Ólafur vísar því á bug að blekkingum hafi verið beitt. Samningarnir hafi snúið „að fjármögnun á hlut Hauck & Aufhäuser í þessum viðskiptum, áhættu og hvernig hagnaði, ef af yrði en ekkert lá fyrir um, væri skipt. Hagnaðurinn kom til vegna hækkunar á hlutabréfaverði á tveggja ára tímabili en ekki vegna meintra blekkinga.“

Segist hann að lokum ekki ætla að tjá sig frekar um efni skýrslunnar fyrr en hann hafi fengið tækifæri til þess að kynna sér efni hennar og forsendur betur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert