Kallar S-hópinn „Svika-hópinn“

Björgólfur Thor Björgólfsson.
Björgólfur Thor Björgólfsson. mbl.is/RAX

Björgólfur Thor Björgólfsson kallar S-hópinn, „Svika-hópinn“, í pistli  á vefsíðu sinni um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis vegna sölunnar á hlut ríkisins í Búnaðarbankanum árið 2003.

„Hópur þjóðkunnra tækifærissinna setti saman Svika-hópinn sem átti ekkert erlent fjármagn og var skuldsettur upp að öxlum, notaðist við lánsfé og tók síðan fleiri lán til viðbótar. Allt einkavæðingarferlið breyttist strax og Svika-hópurinn kom að því. Einkavæðing beggja banka fór þá að miðast í öllu við þarfir þessa hóps og óskir, tímasetningar og framkvæmd öll fór eftir duttlungum hans,“ skrifar Björgólfur og bætir að hann hafi skrifað um þetta í bók sinni Billions to Bust and Back.

„Svika-hópurinn þurfti samt að sýna fram á, að hann styddist við öflugan, erlendan banka, til að eiga von til þess að ríkið vildi selja þessum samansafni lukkuriddara ráðandi hlut í Búnaðarbankanum,“ skrifar hann.

„Lengi vel létu þeir eins og franski stórbankinn Société Général væri með þeim í kaupunum, en að lokum reyndist stóri, erlendi bankinn vera lítill, þýskur einkabanki sem enginn þekkti til. Og sá banki bara ómerkilegur leppur Ólafs Ólafssonar.“

Ólafur Ólafsson, til vinstri.
Ólafur Ólafsson, til vinstri. mbl.is/Ómar Óskarsson

Björgólfur Thor bætir við að hann hafi alltaf verið hlynntur ítarlegri rannsókn á einkavæðingu Landsbankans og Búnaðarbankans árin 2002 og 2003 og hann ítreki það aftur núna.

„Það er löngu tímabært að sú saga verði öll sögð, svo þeir beri skömmina sem eiga hana og aðrir fái uppreist æru. Og tímabært að stjórnmálamenn standi við yfirlýsingar sínar um gagnsæi. Ég er reiðubúinn að mæta fyrir hvaða nefnd sem er og fara ítarlega yfir einkavæðingu Landsbankans.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert