Spáð allt að 35 m/s

Vindaspá Veðurstofu Íslands.
Vindaspá Veðurstofu Íslands.

Spáð er austanstormi (meira en 20 m/s) undir Eyjafjöllum og austur í Öræfasveit í dag, en vindhviður geta náð 35 m/s. Búast má við talsverðri úrkomu austan Öræfa seinni partinn, segir í viðvörun á vef Veðurstofu Íslands.

Í dag nálgast lægð sunnan úr hafi og leggst hún að suðausturströndinni í kvöld. Lægðinni fylgir norðaustanstormur og talsverð rigning, jafn vel slydda á suðaustanverðu landinu. Veður helst þó mun hægara og oftast þurrt í öðrum landshlutum.

Á morgun verður lægðin komin fyrir austan land og snýst þá í norðanátt, allhvassa eða hvassa norðvestan til, en annars mun hægari. Norðanáttin ber svalt loft yfir landið norðan og austanvert með tilheyrandi éljum eða snjókomu á þeim slóðum. Áfram helst þó víða bjart fyrir sunnan og vestan. Hiti getur farið upp fyrir 10 stig þegar best lætur syðra, en tæplega upp fyrir frostmark sums staðar fyrir norðan, segir í hugleiðingum veðurfræðings á Veðurstofu Íslands.

Spáin fyrir næsta sólarhring:

Norðaustan 8-13 m/s og þurrt að kalla, 15-23 og talsverð rigning suðaustan til undir hádegi og sums staðar slydda, en léttir víða sunnan- og vestanlands. Hægari suðaustanátt austan til í kvöld. Norðaustan 10-18 norðvestan til á morgun, en annars 5-13. Víða snjókoma eða él, en bjartviðri suðvestan til. Hiti 1 til 11 stig að deginum, hlýjast syðst.

Á föstudag og laugardag:

Norðan og norðaustan 8-15 m/s og éljagangur eða snjókoma norðan- og austanlands, en hægara og bjartviðri suðvestan til. Hiti 1 til 10 stig að deginum, hlýjast syðst.

Á sunnudag:
Gengur í austan og suðaustan 15-23 m/s með rigningu og hlýnandi veðri, hvassast syðst, en úrkomuminna og vægt frost fyrir norðan.

Á mánudag:
Suðvestanhvassviðri eða -stormur með skúrum eða slydduéljum, en hægara og birtir til fyrir austan. Kólnandi veður.

Á þriðjudag:
Útlit fyrir hvassa norðvestanátt eða -storm með éljagangi frosti víða um land.

Á miðvikudag:
Lægir líklega og léttir til, en gengur í suðaustanátt með slyddu eða snjókomu um kvöldið. Heldur hlýnandi veður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert