Níu skákmenn efstir og jafnir

Aman Hambleton einbeittur á svip við skákborðið.
Aman Hambleton einbeittur á svip við skákborðið. Ljósmynd/Aðsend

Enginn skákmaður er lengur með fullt hús vinninga eftir umferð dagsins á Gamma Reykjavíkurmótinu í skák sem fer fram í Hörpu.

Á þremur efstu borðunum varð jafntefli niðurstaðan. Efstu menn eru því með 4,5 vinninga af 5 mögulegum. Stigahæsti maður mótsins, Anish Giri, varð loks að sættast á skiptan hlut gegn Indverjanum Vidit sem ákvað að endurtaka leiki snemma tafls og úr varð stutt skák, að því er kemur fram í tilkynningu.

Jóhann Hjartarson í Hörpu í dag.
Jóhann Hjartarson í Hörpu í dag. Ljósmynd/Aðsend

„Hannes Hlífar Stefánsson átti ekki góðan dag gegn Georgíubúanum Baadur Jobava sem sá lengra í flækjunum í miðtaflinu. Mikla athygli vakti vösk vörn hins efnilega Vignis Vatnars Stefánssonar gegn Íslandsmeistaranum Jóhanni Hjartarsyni. Vignir náði jafntefli og klárlega hans bestu úrslit á hans unga ferli. Bragi Þorfinnsson vann sína skák og er nú orðinn efstur Íslendinga með fjóra vinninga. Vert er einnig að minnast á góð úrslit hjá Halldór G. Einarssyni sem gerði jafntefli við indverska undabarnið Nishal Sarin sem er framtíðar stórstjarna,“ segir í tilkynningunni.

Níu skákmenn eru efstir og jafnir eftir skákir dagsins. Leikar hefjast aftur á morgun klukkan 15 og skákskýringar sem fyrr klukkan 17. Áhorfendum er velkomið að fylgjast með meisturunum í Hörpu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert