„Landspítala bíður björt framtíð“

Óttarr Proppé heilbrigðisráðherra er bjartsýnn á framtíð heilbrigðiskerfisins.
Óttarr Proppé heilbrigðisráðherra er bjartsýnn á framtíð heilbrigðiskerfisins. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Landspítala bíður björt framtíð,“ sagði Óttarr Proppé heilbrigðisráðherra þegar hann ávarpaði ársfund Landspítalans í dag. Hann telur að Landspítalinn geti orðið framúrskarandi vinnustaður sé rétt haldið á spilunum. 

Yfirskrift fundarins sem hófst um tvöleytið á Hilton-hótelinu í Reykjavík var „Framtíð Landspítala“. Í upphafi erindisins talaði Óttarr um að Landspítalinn hefði sterk tengsl við landsmenn og væri þannig uppspretta margvíslegra skoðanaskipta. Framtíð spítalans sé hinsvegar ekki óskrifað blað því mikilvægar framkvæmdir og ákvarðanir væru í vændum. Þeirra á meðal er sjúkrahótelið sem verður fyrsti áfanginn í uppbyggingu nýs Landspítala við Hringbraut.  

Margt gott í fjármálaáætluninni

Í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar til næstu fimm ára er Landspítalinn settur á oddinn sem og heilbrigðismál almennt, að sögn Óttarrs.  Fjárframlög verði aukin í skrefum og nemur aukningin 9% milli 2017-2018. Áhersla verði lögð á uppbyggingu hjúkrunarrýma og geðheilbrigðisúrræði. 

Óttarr sagði að stefnt sé að því að minnka greiðsluþátttöku sjúklinga í samræmi við stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar þannig að fólk viti fyrir víst að kostnaður fari ekki yfir ákveðið mark. Þá telur hann að Landspítalinn geti orðið framúrskarandi vinnustaður og ýmis jákvæð teikn séu á lofti eins og nýi jáeindaskanninn sem geri greiningu og meðferð á margs konar sjúkdómum markvissari. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert