Segist ekki hafa hunsað fjármálaráð

Benedikt Jóhannsson á Alþingi..
Benedikt Jóhannsson á Alþingi.. mbl.is/Kristinn Magnússon

Benedikt Jóhannesson, fjármála- og efnahagsráðherra, segist ekki hafa hunsað þær ábendingar sem fjármálaráð veitti stjórnvöldum vegna nýrrar fjármálaáætlunar.

„Fjármálaráð kom með margar gagnlegar ábendingar í áliti sínu. Sumar þessara ábendinga komu reyndar frá fjármálaráðuneytinu,“ sagði Benedikt á Alþingi í svari við fyrirspurn Oddnýjar G. Harðardóttur, þingmanni Samfylkingarinnar.

„Ráðuneytið er fullupplýst um að það vantar enn nokkuð á að það hafi öll þau tæki sem æskilegt væri að það hefði til að leggja fram fjármálaáætlun til langs tíma. Ég tel ekki rétt að tala um að fjármálaráðherra hunsi ábendingar sem hann fær eftir að hann leggur fram áætlunina,“ sagði Benedikt og bætti við að erfitt væri að fara eftir ábendingum um eftir á.

„Við gátum ekki tekið tillit til þessara ábendinga í þetta sinn en ég hef hafið undirbúning að því að í næsta skipti sem fjármálaáætlun er lögð fram munum við taka tillit til þeirra ábendinga sem þar koma fram.“

Odd­ný G. Harðardótt­ir, þingmaður Samfylkingarinnar.
Odd­ný G. Harðardótt­ir, þingmaður Samfylkingarinnar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hann nefndi einnig að hann væri sammála fjármálaráði um að fjármálaráðuneytið fari eftir þjóðhagslíkani. Lögð hafa verið drög að því að ráðuneytið fái aðgang að slíku líkkani.

Oddný sagði að hægt væri að gera breytingar á fjármálaáætlun á milli umræða og vonaðist hún til að það yrði gert. „Til þess að svo megi verða verður að fara eftir ábendingum ráðsins.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert