„Standa öll spjót á rokkbóndanum“

Óttarr Proppé heilbrigðisráðherra.
Óttarr Proppé heilbrigðisráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Ég vissi að hann hefði verið í hljómsveit sem bæri nafnið HAM. En að hann gæti skipt jafn auðveldlega um ham, það hafði mig ekki grunað.“ Þetta sagði Einar Brynjólfsson, þingmaður Pírata, um Óttar Proppé heilbrigðisráðherra á Alþingi í dag.

Þingmenn stjórnarandstöðunnar notuðu þá dagskrárliðinn „fundarstjórn forseta“ til að ræða málefni einkarekna heilbrigðisfyrirtækisins Klíníkurinnar.

Þingmönnum var sumum hverjum heitt í hamsi við umræðuna og þurfti forseti Alþingis að biðja um þögn í salnum eftir ítrekuð frammíköll þingmanna. Á sama tíma var Óttarr á ársfundi Landspítalans.

Loðin svör sögð einkennandi fyrir Óttar

Sigurður Ingi Jóhannsson, fyrrverandi forsætisráðherra og formaður Framsóknarflokksins, hóf umræðuna á því að rifja upp svör Óttars við spurningum þingmanna um málið 23. mars. Fram hefði komið í svörum hans að ekki stæði til að breyta einu eða neinu frá því fyrirkomulagi sem gilt hefði.

„En ég verð að segja alveg eins og er, að ráðherra hefur ekki sagt okkur nægilega skýrt frá. Af hverju notaði hann ekki tækifærið og sagði okkur rétt frá stöðunni, frekar en að leiða okkur á villigötur?“ spurði Sigurður Ingi.

Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Pírata, sagði það einkennandi fyrir Óttar að orð hans væru allt of loðin. „Hann virðist ekki geta komið með afgerandi svör varðandi mjög brýn mál,“ sagði hún og bætti við að hann hefði afvegaleitt þingið og umræðuna í samfélaginu.

Svandís Svavarsdóttir, þingflokksformaður Vinstri grænna.
Svandís Svavarsdóttir, þingflokksformaður Vinstri grænna. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Tóm þvæla“

Svandís Svavarsdóttir, þingflokksformaður Vinstri grænna, sagði ráðherrann hafa verið þráspurðan þennan dag, 23. mars. Í fjórðu tilraun hefði loks tekist að draga upp úr honum efnislegt svar, um að ekki væri í farvatninu einkasjúkrahús á vegum Klíníkurinnar.

„Ég sé ekki betur en að ástandið sé þannig núna en að hann sé á harðahlaupum undan fjölmiðlum,“ sagði Svandís og benti á að ríkisstjórnin hefði sérstaklega tekið fram að heilbrigðismálin yrðu í forgangi í hennar tíð.

„En það er tóm þvæla að segja að þessi ríkisstjórn leggi áherslu á heilbrigðismál. Það gerir hún ekki.“

Ásta Helgadóttir, þingflokksformaður Pírata, sagði það grundvallaratriði í þingræðisríki að þingmenn fengju rétt og skýr svör frá ráðherrum. Hins vegar virtist það ítrekað ekki vera raunin.

„Til hvers er þá Alþingi?“ spurði Ásta.

„Kannski talar hann tungum tveim“

Guðjón Brjánsson, þingmaður Samfylkingarinnar, sagði Óttar vera yfirvegaðan mann. Hann væri þó seinn til svars og svör hans væru loðin.

„Kannski talar hann tungum tveim enda ekki í auðveldri stöðu,“ sagði Guðjón og benti á að í viðskipta- og verslanaumhverfinu í Ármúla væri lífleg sjúkrahússtarfsemi sem gangi áfram „eins og enginn væri morgundagurinn.“

Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, kom ráðherranum til varnar.

„Það gilda bara ákveðin lög í þessu landi. Það getur hver sem er opnað klíník sem uppfyllir skilyrði laganna. Þetta er ekki spurning um skoðun eða pólitík ráðherrans. Ef menn vilja breyta þessu þá er bara að breyta lögunum,“ sagði Brynjar.

„Og þetta er staðurinn til þess.“

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, þingmaður Vinstri grænna.
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, þingmaður Vinstri grænna. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Algjörlega óásættanlegt“

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, þingmaður Vinstri grænna, sagði yfirlýsingu landlæknis gefa til kynna að ágreiningurinn væri of mikill til að málið yrði ekki rætt innan veggja þingsins.

„Velferðarnefnd verður að fá fólk á sinn fund og útkljá þetta í eitt skipti fyrir öll,“ sagði Bjarkey og bætti við að „algjörlega óásættanlegt“ væri að heilbrigðisráðherra og landlæknir túlkuðu lögin með jafnólíkum hætti og raun bæri vitni.

Lilja Rafney Magnúsdóttir tók undir með flokkssystur sinni og sagði öll spjót standa á „rokkbóndanum“ Óttari Proppé. Hann ætti að sýna þann sóma gagnvart Alþingi að mæta á þingfund, á sama tíma og verið væri að koma á tvöföldu heilbrigðiskerfi þar sem fjármagn úr ríkiskassanum rynni óhindrað í einkageirann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert