Framkvæmdir við 2+1 veg hefjist á næsta ári

700 milljónir eru áætlaðar í 2+1 veg frá Kollafirði að …
700 milljónir eru áætlaðar í 2+1 veg frá Kollafirði að Hvalfjarðargöngum á næsta ári. Kostnaður við heildarframkvæmdina er talinn 3 milljarðar. mbl.is/Styrmir Kári

Ekki er gert ráð fyrir að breikkun Hringvegarins frá Hvalfjarðargöngum að Borgarfjarðarbraut á núverandi samgönguáætlun. Þetta kemur fram í svari samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra við fyrirspurn frá Bjarna Jónssonar, varaþingmanni Vinstri hreyfingarinnar- Græns framboðs um Vesturlandsveg.

Bjarni spurði í fyrirspurn sinni hvenær áformað væri að styrkja og breikka Vesturlandsveg frá Kjalarnesi í Borgarnes og leggja þar „tvo plús einn veg“? 

Í svörum ráðherra segir að áætlaður kostnaður við breikkun Hringvegarins frá Kollafirði að Hvalfjarðargöngum í „2+1“-veg sé talinn nema um 3 milljarðar kr. Í samgönguáætlun fyrir árabilið 2015–2018, sem samþykkt var á Alþingi sl. haust, hafi 700 millj. kr. verið áætlaðar til til framkvæmdarinnar á næsta ári. Í þingsályktunartillögu að samgönguáætlun fyrir árabilið 2015–2026 sé síðan gert ráð fyrir að breikkuninni verði lokið á öðru tímabili áætlunarinnar, þ.e. á árabilinu 2019–2022. 

Bjarni spurði einnig hver áætlaður kostnaður við breikkun og styrkingu Vesturlandsvegar frá Kjalarnesi í Borgarnes væri. Samkvæmt svörum ráðherra nemur kostnaðurinn við breikkun 32 mk vegakafla Hringvegarins frá Hvalfjarðargöngum að Borgarfjarðarbraut, á bilinu 7–10 milljarðar kr.

Ekki liggi hins vegar fyrir áætlun um hvenær verði ráðist í þær framkvæmdir, þar sem þær sé ekki að finna í áðurnefndri þingsályktunartillögu að samgönguáætlun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert