Fundu blóð á úlpu hins ákærða

Thomas Møller Ol­sen í Héraðsdómi Reykjaness.
Thomas Møller Ol­sen í Héraðsdómi Reykjaness. mbl.is/Ófeigur

Lögreglan fann blóð úr Birnu Brjánsdóttur á úlpu Thom­asar Møllers Ol­sens sem ákærður er fyrir að hafa myrt hana. Einnig sýndi rannsókn fram á að önnur föt hans, sem höfðu verið þvegin, höfðu komist í snertingu við mikið af blóði. Þetta kemur fram á fréttavefnum Vísir.is en fjallað var um málið í kvöldfréttum Stöðvar 2. Byggt er á gæsluvarðhaldsúrskurði yfir honum.

Einnig kemur fram að þekjufrumur frá Olsen hafi fundist á skóreimum Birnu en skór hennar fundust við Hafnarfjarðarhöfn skammt frá þeim stað sem togarinn Polar Nanoq lá en Olsen var í áhöfn hans en þekjufrumur mynda meðal annars húðina. Olsen hefur neitað að hafa myrt Birnu en viðurkennt að hafa tekið Birnu upp í rauða Kia Rio-bifreið sem hann hafði á leigu.

Annar skipverji af Polar Nanoq var í bifreiðinni með Olsen en hann fór úr henni í Hafnarfjarðarhöfn þar sem togarinn lá. Sagðist hann við yfirheyrslur hafa séð Birnu liggjandi í aftursæti bifreiðarinnar þegar hann yfirgaf hana. Haft er eftir Olsen að hann hafi síðan farið á annan stað við höfnina og farið í farþegasætið aftur í bifreiðinni og kysst Birnu.

Olsen talaði um að tvær stúlkur hafi verið í bifreiðinni og tók hinn skipverjinn upphaflega undir það en dró það síðan til baka. Sagðist hann hafa byggt upphaflegu frásögnina á því sem Olsen hafi sagt honum en hann hafi verið mjög ölvaður. Miðað við upptökur úr eftirlitsmyndavélum var Olsen í aftursætinu í um 50 mínútur og er þá talinn hafa veitt Birnu áverka.

Benda til ofsafenginnar kyrkingar með höndum

Fram kemur í greinargerð lögreglu sem birt er í gæsluvarðhaldsúrskurðinum að rannsókn meinafræðings hafi leitt í ljós að Birnu hafi verið veittir talsverðir áverkar í andliti og á höfði sem verulega hljóti að hafa blætt úr. Þá hafi hún verið með mikla þrýstiáverka á hálsi sem bendi til ofsafenginnar kyrkingar með höndum.

Olsen segist í kjölfarið hafa ekið um í Hafnarfirðinum og loks sett Birnu og hina stúlkuna út og ekki séð hana meira. Hann hafi þá ekið á ákveðinn stað og lagt sig í bílnum en upptökur úr öryggismyndavélum á þeim stað styðja það ekki. Lögreglan telur að Olsen hafi þvert á móti í kjölfarið varpað Birnu í sjó eða vatn skammt frá Selvogsvita. Var hún þá með veika meðvitund að mati réttarmeinafræðings og að banamein hennar hafi verið drukknun.

Eftir þetta sést Olsen á upptökum öryggismyndavéla þrífa bifreiðina. Einkum hægra aftursætið. Hann gaf þá skýringu að um ælu hafi verið að ræða en áður hafði hann keypt hreinsivörur í Krónunni. Samkvæmt rannsókn lögreglunnar var mikið blóð í bifreiðinni og var blóðið úr Birnu. Því næst fór hann með stóran svartan ruslapoka um borð í Polar Nanoq.

Ökuskírteini Birnu hafi meðal annars fundist um borð í togaranum eins og áður hefur komið fram en það hafi verið í svörtum ruslapoka. Olsen hefur ekki getað gefið skýringar á því. Fingrafar Olsens reyndist á ökuskírteininu. Þar fundust einnig blóðugir gúmmíhanskar. Ekki kemur hins vegar fram í greinargerð lögreglunnar úr hverjum það blóð hafi verið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert