Aukin niðurgreiðsla til dagforeldra

Frá Sauðárkróki.
Frá Sauðárkróki. mbl.is/Sigurður Bogi

Sveitarfélag Skagafjarðar hefur samþykkt 20% hækkun á niðurgreiðslum og reglur sem tryggja dagforeldrum niðurgreiðslur sem svara þremur börnum, kr. 64.922 á mánuði vegna þriggja barna í 11 mánuði á ári. Þetta er gert með það að markmiði að auka atvinnuöryggi dagforeldra.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá sveitarfélaginu. Það vill með þessu leita frekari leiða til að gera starfið meira aðlaðandi og leitar fjölskyldusvið sveitarfélagsins því eftir samstarfi við aðila sem gætu hugsað sér að taka börn í daggæslu á einkaheimili á Sauðárkróki eða í næsta nágrenni.

„Við leitumst við að bjóða öllum börnum sem náð hafa eins árs aldri leikskólapláss og það hefur tekist vel. Á haustin geta skapast vandræði og þá hefur stundum reynst erfitt að fá dagforeldra til starfa. Starfið virðist ekki eins eftirsóknavert og það var,“ segir Herdís Sæmundsdóttir, sviðsstjóri á fjölskyldusviði sveitarfélags Skagafjarðar.

„Til að koma til móts við dagforeldra og tryggja starfsöryggi fórum við í að breyta reglunum hjá okkur og hækka þannig greiðslur til dagforeldra sem skilar sér í að við tryggjum að dagforeldrar fái að lágmarki greitt fyrir þrjú börn óháð hvort þeir fylli upp í kvótann. Við viljum ekki að dagforeldrar gefist upp,“ bætir Herdís við.

Herdís segir hugmyndina ekki eiga sér hliðstæðu hér á landi að henni vitandi enda sé hún „heimasmíðuð“. „Við stærum okkur af að vera fjölskylduvænt samfélag og þetta er hluti af því. Einnig höfum við tekið upp svokallaðar foreldragreiðslur, sem þýðir að ef barn kemst ekki að hjá dagforeldri getur foreldri fengið greitt fyrir að vera með barnið heima.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert