Ekki nóg að svitna, andinn þarf líka sitt

Í logni 440 m fyrir ofan kyrran hafflöt Berufjarðar beið …
Í logni 440 m fyrir ofan kyrran hafflöt Berufjarðar beið þeirra hluti af því sem gefur fjallvegahlaupum gildi. Ljósmynd/Stefán Gíslason

Hann ætlar ekki að leggjast í kör eða byrja að reykja, eða safna spiki, þó hann hafi lokið við það verkefni að hlaupa og ganga 50 fjallvegi undanfarinn áratug. Stefán Gíslason leggur mikið upp úr því að kynnast sögu svæða sem hann fer um.

„Ég var meðvitaður um það þegar ég varð fimmtugur fyrir tíu árum, að ég þyrfti að gera eitthvað til að viðhalda einhverjum lífsgæðum. Það er ekki hægt að gera allt seinna, tíminn er ekki ótakmörkuð auðlind á einni mannsævi. Ef maður ætlar að hafa það þokkalegt á seinnihlutanum þá gerist það ekki sjálfkrafa, maður þarf að vinna í því,“ segir Stefán Gíslason sem á hálfrar aldar afmælinu tók þá ákvörðun að ganga og hlaupa fimmtíu fjallvegi fyrir sextugt. Nú tíu árum síðar sendi hann frá sér á sextugsafmælinu bókina Fjallvegahlaup, en hún geymir lifandi leiðarlýsingar þeirra 50 vega sem hann stóð við að fara.

Stefán er ekkert sófadýr sem aldrei hefur hreyft sig, hann byrjaði að hlaupa sér til gamans þegar hann var tíu ára og byrjaði að keppa í hlaupum fimmtán ára.

Við snjórönd. Stefán veður Hrútá en í henni rennur jökulkalt …
Við snjórönd. Stefán veður Hrútá en í henni rennur jökulkalt leysingavatn. Ljósmynd/Sævar Skaptason


„Um þrítugt fór ég að keppa í götuhlaupum og fyrsta maraþonið hljóp ég um fertugt. En ég var oft latur að hlaupa á veturna.“

Afi gekk með varning á bakinu

Þegar Stefán fór að leita og velja hvaða fimmtíu leiðir hann ætti að fara, kom honum mest á óvart hversu margar gönguleiðir eru til og einnig komu honum skemmtilega á óvart allar sögurnar sem eru til um þessar leiðir.

„Ég ólst upp í miklum pælingum um landafræði og á mínu æskuheimili var mikið talað um landið, hvar hinn og þessi fjörður væri og annað slíkt. Ég er svo lánsamur að eiga foreldra sem fæddir eru rétt eftir aldamótin 1900 og voru hafsjór af fróðleik. Pabbi var í mikilli nánd við náttúruna í sínu hversdagslífi á æskuárunum, hann sat yfir ánum átta ára strákur,“ segir Stefán sem lagðist í heimildavinnu um gönguleiðirnar.

„Það var ótrúlega lærdómsríkt að fara í gegnum frásagnir þar sem kemur fram hvað fólk var að glíma við fyrir hundrað til þrjú hundruð árum. Þessar gömlu þjóðleiðir voru farnar í ýmsum erindum, með fjárrekstra, í verslunarferðir og á leið í verið. Einnig voru þetta póstleiðir. Afi minn var fæddur 1865 og bjó í Bitrufirði, en hann gekk fram og til baka Gaflfellsheiði til Búðardals til að komast í verslunina þar, en það eru rúmlega fjörutíu kílómetrar hvora leið. Hann bar verslunarvarninginn á bakinu, um tuttugu kíló, svo það var mikið haft fyrir hlutunum. Þá voru ekki til almennilegir skór, faðir minn gekk á sauðskinnsskóm þar til hann varð 17 ára, þá fékk hann sín fyrstu gúmmístígvél, sem var gríðarleg framför, en fram að því voru allir meira og minna blautir í fæturna og kalt eftir því. Áður fyrr var engin leið að láta vita af sér á löngum ferðum um fjöll, veðurspár voru lélegar og ekkert til að rata eftir nema fylgja hyggjuviti og reynslu. Við nútímafólk förum þessar leiðir í goritexgöllum, sérstökum gönguskóm, með gps-tæki, síma og neyðarbúnað. Þetta eru því allt aðrar aðstæður.“

Eyðibýlið Staður í Grunnavík, leiðin lá svo beint inn á …
Eyðibýlið Staður í Grunnavík, leiðin lá svo beint inn á Staðarheiði. Ljósmynd/Stefán Gíslason


Pælingarnar snerta mig mest

Stefán segist hafa fundið minnisstæðustu tenginguna við gönguleið þegar hann las þríleik Jóns Kalmans, bækurnar Himnaríki og helvíti, Harmur englanna og Hjarta mannsins, en tvær seinni bækurnar segja frá póstferð frá Ísafirði norður fyrir Jökulfirði, á Hornstrandir.

„Jón Kalman lýsir óskaplega vel þessari horfnu veröld og við að lesa bækur hans fékk ég mikinn áhuga á þessu svæði sem ég þekkti lítið fyrir. Mér fannst gaman að segja göngufélögum mínum frá þessu öllu og tók það með í leiðarlýsingarnar í bókinni minni. Ég lagðist í grúsk um leiðir fyrir norðan djúpið og ég las söguna af Sumarliða Brandssyni landpósti sem fórst á Snæfjallaheiði í desember 1920. Þessar pælingar snerta mig mest. Það er gaman að tengja sig við atburði sem hafa gerst á þeim slóðum sem maður gengur um, og það er líka gaman að geta þekkt jurtir og fugla sem verða á vegi manns. Þess vegna finnst mér mikilvægt að tengja mig við náttúruna og söguna sem býr á hverju svæði sem ég hleyp um.“

Nesháls að baki. Hulda Steingrímsdóttir og dóttirin Sólveig Lára.
Nesháls að baki. Hulda Steingrímsdóttir og dóttirin Sólveig Lára. Ljósmynd/Stefán Gíslason


Þar iðaði allt af lífi áður fyrr

Stefán segist fá mikið út úr því að hlaupa um eyðibyggðir, því þá fer hann að hugsa um hverskonar lífi fólk lifði þar.

„Ferðalagið um Snæfjallahringinn var mjög eftirminnilegt, inni í Grunnavík og í Jökulfirði, það er í raun ótrúlegt að fólk hafi búið þarna. Nyrsta leiðin sem ég fór, Sléttuheiðin, liggur frá Aðalvík til Hesteyrar og er rík að sögu, en Harmur englanna endar einmitt á þeim slóðum. Við upplifðum mikla dulúð þegar við hlupum þessa leið, það var logn og mikil þoka. Einnig er magnað að hlaupa um í Fjörðum, milli Eyjafjarðar og Skjálfanda. Ég hljóp Leirdalsheiði en þá endar maður í eyðibyggð þar sem Látra-Björg bjó. Víknaslóðir á Austfjörðum eru líka í uppáhaldi hjá mér, svæðið milli Borgarfjarðar eystri og Loðmundarfjarðar, en þar fór allt í eyði fyrir meira en hálfri öld. Þarna bjó fjöldi fólks á mörgum heimilum og þarna var útgerð, svo allt iðaði af lífi og líka fólki frá öðrum löndum, skip frá Færeyjum gerðu út frá Húsavík á Víknaslóðum. Að kynna sér söguna bætir miklu við upplifunina að ganga, hlaupa eða hjóla á þessum slóðum. Það er ekki nóg að svitna, andinn þarf líka sitt,“ segir Stefán og bætir við að hann haldi mikið upp á tvær heiðar á Austfjörðum; Stuðlaheiði og Reindalsheiði, þær séu háar og fjölbreyttar.

Forsíða bókar Stefáns um fjallvegahlaupin.
Forsíða bókar Stefáns um fjallvegahlaupin.


En hvað tekur við nú þegar þessu stóra verkefni er lokið?

„Ég hætti ekkert að hlaupa og ætla ekki að leggjast í kör eða byrja að reykja, eða safna spiki. Ég ætla að hlaupa nokkra fjallvegi í sumar, enda veit ég um meira en þrjátíu leiðir, svo það er af nægu að taka. Núna er ég að æfa fyrir Laugavegshlaup og nýt þess að vera kominn í nýjan aldursflokk í hlaupum, sextíu plús.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert