Hörð gagnrýni Öryrkjabandalagsins

Öryrkjabandalag Íslands vill að bæturnar verði hækkaðar meira.
Öryrkjabandalag Íslands vill að bæturnar verði hækkaðar meira. mbl.is/Ómar

Stjórn Öryrkjabandalags Íslands gagnrýnir harðlega að fyrirhuguð hækkun bóta almannatrygginga á árunum 2018 til 2022 eigi einungis að verða á bilinu 3,1%- 4,8% í fjármálaáætlun ríkisins til næstu fimm ára.

Þetta kemur fram í ályktun frá bandalaginu.

„Um er að ræða mjög lága prósentuhækkun til örorkulífeyrisþega, sem eru almennt með mjög lágar tekjur. Kjör þessa hóps hafa dregist mjög aftur úr kjörum meginþorra landsmanna. Ljóst er af tillögunum að stjórnvöld hafa ekki í hyggju að bæta kjör örorkulífeyrisþega, sem standa verst, þ.e. þeirra sem hafa engar eða lágar aðrar tekjur en lífeyri almannatrygginga til framfærslu,“ segir í ályktuninni.

„Þá er gagnrýnt hversu lágar fjárhæðir eru áætlaðar til uppbyggingar innviða og þjónustu heilbrigðiskerfisins. Öflugt heilbrigðiskerfi sem inniber m.a. sálfræði- og tannlæknaþjónustu, þar sem biðlistar eru engir hefur bein áhrif á líðan fólks í landinu og ætti að geta dregið úr nýgengi örorku.“

Í ályktuninni kemur einnig fram að styrkja þurfi og styðja menntastofnanir í landinu þannig að ljóst sé að allt nám sé aðgengilegt á öllum skólastigum og á öllum aldri.

„Er þar meðal annars átt við að nemendur fái námsefni við hæfi, að menntastofnanir séu í hentugu húsnæði þar sem allt aðgengi er gott. Þá á að veita  viðeigandi aðlögun í námi þannig að nemendur með fötlun eigi sömu möguleika á menntun og þar með sömu möguleika á vinnumarkaði til jafns við aðra.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert