Ekki gangsett fyrr en við getum lágmarkað lykt

Kísilmálmsmiðja United Silicon verður ekki ræst aftur fyrr en lausn …
Kísilmálmsmiðja United Silicon verður ekki ræst aftur fyrr en lausn hefur fundist á lyktarvandanum. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Ekki er enn komin nein dagsetning á það hvenær ljósbogaofn kísilmálmsmiðju United Silicon verður ræstur aftur, en það verður þó örugglega ekki í þessari viku. Þetta segir Kristleifur Andrésson, stjórnandi öryggis- og umhverfismála hjá United Silicon. Umhverfisstofnun sendi frá sér tilkynningu nú í morgun þar sem fram kemur að stofnunin hafi stöðvað rekstur verksmiðjunnar og að ofninn verði ekki ræstur aftur nema að gefnu leyfi og í samráði við stofnunina.

„Við erum ekki farnir að horfa á eina dagsetningu umfram aðra varðandi gangsetningu ofnsins,“ segir Kristleifur. Það er þó ljóst að það verður ekki í þessari viku, en lengra vil ég ekki spá.“

Stjórn United Silicon fundaði á mánudag með sérfræðingum norska ráðgjafafyrirtækisins Multikonsult um lyktarmengunina sem erfitt hefur reynst að vinna bug á. Kristleifur vill ekki segja hvað fram fór á fundinum að öðru leyti en því að sérfræðingarnir hafi lagt til ákveðna hluti sem verið sé að vinna eftir.

Ekki ósáttir við búnaðinn

„Ég get þó sagt að þeir eru ekkert ósáttir við búnaðinn sem slíkan, en það er ýmislegt sem þarf að laga,“ segir hann og bætir við að engin lagfæringanna sé stórvægileg.

Erfitt hefur reynst að halda ljósbogaofninum í verksmiðjunni stöðugum.
Erfitt hefur reynst að halda ljósbogaofninum í verksmiðjunni stöðugum. Ljósmynd/United Silicon

Tillögurnar lúti þó allar að því að bæta stöðugleikann í brennslu ofnsins, enda komi lyktin sem íbúar Reykjanesbæjar finna þegar ofninn er undir ákveðnu álagi eða þegar slokknar á honum. „Við ætlum okkur ekki að gangsetja ofninn fyrr en við erum komnir með eitthvað sem við teljum hjálpa okkur að lágmarka þessa lykt.“

Multikonsult lagði einnig til að leitað yrði til norsku loft­rann­sókna­stofn­un­ar­inn­ar NILU (Norsk institutt for luft­forskn­ing) um að fram­kvæma mæl­ing­ar á loft­gæðum í ná­grenni verk­smiðjunn­ar þegar ljós­boga­ofn­inn verður ræst­ur að nýju og segir Kristleifur Multiconsult verða milliliðinn í því samstarfi.

Verða á svæðinu þar til rekstur er orðinn eðlilegur 

Sérfræðingar frá framleiðanda ofnsins eru einnig staddir hér á landi og eru að að sögn Kristleifs að vinna að ýmsum lagfæringum. „Þeir eru að vinna að endurbótum á búnaði sem ekki hefur verið að virka sem skyldi,“ segir hann og nefnir stillingu tölvukerfa í því sambandi. „Svo eru þeir líka að skipta út pörtum sem hafa ekki verið að skila þeim árangri sem til var ætlast.“

Segir Kristleifur sérfræðingana verða á svæðinu þar til lausn hefur fundist og ofninn orðinn stöðugur.

„Þeir verða hjá okkur þar til þetta verður komið í eðlilegan rekstur.“

Sérfræðingar Multikonsult verða sömuleiðis á landinu á næstunni. „Þeir verða eins lengi og þarf,“ segir hann.

„Síðan erum við með okkar sérfræðinga á fullu í þessu sama. Við erum með mjög reyndan mann sem er orðinn framleiðslustjóri hjá okkur, sem hefur langa reynslu af svona ofnum. Hann er búinn að vera ráðgjafi hjá okkur nokkuð lengi og hann verður hjá okkur áfram. Það er allt gert til að fá þetta til að virka og við erum að leita allra mögulegra leiða til að það gerist.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert