„Mikill pirringur þarna“

Umferð um Keflavíkurflugvöll hefur aukist mikið með tilheyrandi álagi fyrir …
Umferð um Keflavíkurflugvöll hefur aukist mikið með tilheyrandi álagi fyrir starfsfólk. mbl.is/Júlíus Sigurjónsson

82% þeirra starfsmanna Keflavíkurflugvallar sem eru í stéttarfélagi SFR felldu í gær kjarasamning félagsins og Isavia. Árni Stefán Jónsson, formaður SFR, segir úrslit atkvæðagreiðslunnar endurspegla mikinn pirring hjá starfsmönnum vegna álags á Keflavíkurflugvelli.

Á kjörskrá voru 263 félagsmenn og greiddu 198 þeirra atkvæði, sem er svarhlutfall upp á 75,29%. 34 samþykktu samninginn, eða 17,17% en 82,32% höfnuðu honum.

„Það kom kannski á óvart að þetta var fellt þarna, en það sem er að gerast er að það er afar þungur tónn og mikill pirringur í  starfsmönnum,“ segir Árni Stefán. Mikil uppbygging og breytingar séu búnar að vera á Keflavíkurflugvelli, sem ásamt aukin fjölda ferðamanna hafi haft í för með sér mikið álag fyrir starfsfólk.

Komast ekki frá í langan tíma

„Fólk sem er þarna í vopnaleitinni hefur t.d. kvartað mikið yfir að komast ekki frá í langan tíma. Það er mikill pirringur þarna og þetta er einhvern veginn að endurspegla það.“

Mikil uppbygging og breytingar á Keflavíkurflugvelli auka álag á starfsfólk.
Mikil uppbygging og breytingar á Keflavíkurflugvelli auka álag á starfsfólk. Ljósmynd/Isavia

Árni Stefán segir starfsfólk einnig hafa bent á auknir fjármunir hljóti að koma inn með þeim aukna  ferðamannastraumi sem komi til landsins. „Fjöldinn sem fer í gegnum flugstöðina eykst um 30-40% á ári og fólk spyr sig af hverju það njóti þess ekki líka.“

Félag flugvallarstarfsmanna samþykkti samning við Isavia nýlega og segir Árni Stefán ástæðu þessa að sá samningur var samþykktur á meðan að samningur SFR var felldur, kunna að liggja í því að aðstæður starfsmannanna séu mögulega ekki sambærilegar.  

Aðrir gert ágætis samninga

„Þetta er fólkið sem er á gólfinu,“ segir hann. „Aðrir sem koma nálægt fluginu hafa verið að gera ágætis samninga og þegar þetta safnast allt saman, þá hefur þetta búið til mikinn pirring og menn voru ekki sáttir við það sem við gengum frá.“

Félagsmenn SFR á Keflavíkurflugvelli starfa m.a. sem flugeftirlitsverðir í vopnaleit, flugvallastarfsmenn úti, við farþegaþjónustu og á skrifstofu flugvallarins.

Hann segir lítið annað að gera en að snúa aftur að samningaborðinu. „Það sem tekur við næst, er að við reynum að hlusta eftir því hjá okkar félagsmönnum hvað það er sem vantar upp á. Svo biðjum við bara um viðræður og förum í þær,“ segir Árni Stefán og kveðst eiga von á að reynt verði að hraða því ferli.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert