Mótmæla styttri opnunartíma í HÍ

Háskóli Íslands.
Háskóli Íslands. mbl.is/Ómar

Stúdentaráð Háskóla Íslands (SHÍ) mótmælir styttri opnunartíma bygginga háskólans sem tók gildi 1. mars. Breytingin nær fyrst og fremst til kvöld- og helgaropnunar bygginga og skerðir því aðgang nemenda að námsaðstöðu á þeim tímum.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá SHÍ.

Þar segir, að aðgangur nemenda með rafrænt aðgangskort skerðist ekki að þeirra heimabyggingu með breytingunni en þriðjungur nemenda eigi slík kort.

„Ljóst er að tveir þriðju nemenda hljóta verulega skerðingu af þessari breyttu opnun bygginga auk þess sem nemendur með aðgangskort komast aðeins inn í eina háskólabyggingu með kortinu utan opnunartíma.

Stúdentaráð bendir á að við tilkomu aðgangskorta að frumkvæði stúdenta árið 2006 voru stúdentar með sólarhringsaðgang að sinni heimabyggingu. Kortin veittu að auki aðgang að öllum
háskólabyggingum eftir lokun og fram til miðnættis. Aðgangskortin voru nemendum þá aðgengileg þeim að kostnaðarlausu og greiddi háskólinn þann kostnað sem af aðgangskortunum hlaust,“ segir í tilkykynningunni.

Þá kemur fram, að þar sem nú sé tekið hóflegt 1.500 kr gjald fyrir kortin telur Stúdentaráð eðlilegt að kortin veiti nemendum víðtækari aðgang að byggingum skólans en nú er.

„Stúdentaráð skorar á háskólayfirvöld að mæta kröfum nemenda um aðgang að byggingum háskólans, og skorar jafnframt á stjórnvöld að gera þeim kleift að auka þjónustu við nemendur, í stað þess að skerða hana.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert