Sýnir list barna á flótta

Ásdís Kalman hefur kennt börnum myndlist í tólf ár á …
Ásdís Kalman hefur kennt börnum myndlist í tólf ár á Íslandi en aldrei fyrr upplifað að vinna með börnum hælisleitenda en hún segir upplifunina og listina vera alveg einstaka. mbl.is/Golli

Myndlistarkonan og kennarinn Ásdís Kalman heldur utan um eina af sýningum barnamenningarhátíðar í Reykjavík í ár sem nefnist Börn á flótta.

„Sýningin byggist á listasmiðju sem ég stýrði í samstarfi við Rauða krossinn á Íslandi og Þjóðminjasafn Íslands. Markmiðið með smiðjunni var að virkja og hvetja unga hælisleitendur til að tjá sig myndrænt, án orða, en flest barnanna tala önnur tungumál en íslensku eða ensku,“ segir Ásdís sem hefur starfað sem myndlistarkennari á Íslandi í tólf ár en sjaldan séð jafn sterk tengsl milli listarinnar og stöðu barnanna.

„Börnin sem teiknuðu myndirnar á sýningunni hafa flúið ásamt fjölskyldum sínum erfiðar aðstæður og jafnvel stríð í heimalandi sínu. Það sést í listinni. Einn strákur teiknaði t.d. mjög sterka mynd af íslenska fánanum en fánastöngin er mjög veik hjá honum og í lausu lofti. Hann skorti tengingu við landið. Annað dæmi um hvernig börnin tjá líðan sína með list er sjálfsmynd ungrar stelpu sem teiknar sjálfa sig án munns en hún var alveg hætt að tjá sig.“

Vildi gefa börnunum rödd

Ásdís segir börnin oft gleymast í umræðunni um flóttafólk og hælisleitendur. Rödd þeirra og sjónarmið heyrist sjaldan í fjölmiðlum og hún hafi því viljað gefa þeim vettvang til að tjá sig.

„Hugmyndin að setja upp sýninguna og bjóða þessum börnum að taka þátt í barnamenningarhátíð er viðleitni okkar til að gera börnin sýnilegri í nærsamfélaginu. Ég vonast til að gestir fái örlitla innsýn í hagi barnanna og áhuga á að vita meira um málefni barna á flótta.“

Þrátt fyrir margra ára reynslu af kennslu og listsköpun segir Ásdís það hafa verið sérstaka upplifun að vinna með þessum einstaka hópi barna.

„Vinnan fór fram í tengslum við opið hús Rauða Krossins og ég vissi aldrei hvað mörg kæmu í hvert skipti. Það sem einkenndi hins vegar starfið var óróinn í börnunum. Þau þurftu sífellt að fá staðfestingu á að foreldrar þeirra væru nærri. Reynsla mín af að kenna börnum í Skandinavíu er allt önnur, þar koma börnin og eru algjörlega aðskilin frá foreldrum sínum í lengri tíma,“ segir Ásdís og bendir jafnframt á að eingöngu tvö börn af rúmlega 40 séu enn á Íslandi.

Opnað með söng í Hörpu

Barnamenningarhátíð var formlega sett í Hörpu í gær en þar mættu 1.600 börn og sungu með tónlistarkonunni Sölku Sól. Hátíðin stendur fram á sunnudag og er í boði fjöldinn allur af viðburðum og sýningum tengdum hátíðinni.

Markmið hátíðarinnar er að efla menningarstarf barna og ungmenna í borginni. Hátíðin er vettvangur fyrir menningu barna, með börnum og fyrir börn. Hún fer um öll hverfi borgarinnar og rúmar allar listgreinar og annað sem að börnum og menningu þeirra snýr. Barnamenningarhátíð er skipulögð af Höfuðborgarstofu sem heldur utan um almenna skipulagningu og samhæfingu viðburða, stendur að útgáfu dagskrár og kynningu á hátíðinni.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert