Þrengingar í rekstri Kvikmyndaskólans

Kvikmyndaskóli Íslands.
Kvikmyndaskóli Íslands. mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson

„Það er nú eiginlega bara lausn á borðinu og búið að leysa þann vanda sem þarna var uppi við,“ segir Böðvar Bjarki Pétursson, stjórnarformaður Kvikmyndaskóla Íslands, í samtali við mbl.is. Í dag var haldinn fundur með nemendum og starfsfólki skólans til að upplýsa um stöðu mála vegna þrenginga í rekstri skólans. Til að mynda hefur þurft að seinka greiðslum til kennara við skólann vegna þrenginga í rekstri.  

„Þetta hefur að gera með greiðsluflæðið, stærsti hlutinn af tekjunum okkar kemur seinni hluta ársins og við þurfum að sjóðstýra og það kom svona hökt í það og kostaði seinkun á einhverjum kennaralaunum um síðustu mánaðamót,“ útskýrir Böðvar Bjarki. Úr því sé verið að leysa og er útlitið nú ágætt að sögn Böðvars Bjarka. „Kennsla verður áfram og nemendur þurfa ekki að hafa áhyggjur.“

Hilmar Oddson, rektor Kvikmyndaskólans.
Hilmar Oddson, rektor Kvikmyndaskólans. mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson

Hilmar Oddsson, rektor Kvikmyndaskólans tekur í svipaðan streng. „Það eru búnir að vera ákveðnir erfiðleikar sem að tókst að bjarga í dag,“ segir Hörður. Ákveðið hökt hafi verið í rekstrinum og kennsla haldi áfram samkvæmt stundaskrá en hann segir mikilvægt að málið hafi verið leyst svo nemendur geti áhyggjulausir lagt stund á nám sitt þessa önn.

Kennarar ekki fengið laun

Deildarstjórar við skólann hafa aftur á móti haft miklar áhyggjur af stöðunni og vildu nokkrir fara aðra leið heldur en yfirstjórn skólans  til að leysa málið. Í samtali við mbl.is segir Jörundur Rafn Arnarson, deildarstjóri við skapandi tækni í Kvikmyndaskólanum, að fundurinn í dag hafi verið erfiður.

„Við deildarstjórar vitum ekki nákvæmlega bókhaldshliðina á málinu, annað en að við vitum að það er búin að vera greiðslustöðvun varðandi laun til starfsfólks og kennara núna í á annan mánuð,“ segir Jörundur. Hann ásamt tveimur öðrum deildarstjórum við skólann vildi að farin yrði sú leið að segja upp samningi við ráðuneytið og virkja ákvæði þess efnis að ráðuneytið tæki yfir reksturinn út önnina.

Hann segir rekstrarörðuleikana hafa bitnað á kennslu síðustu tvo daga, enda hafi kennarar ekki fengið greidd laun. Vonast hann til að lausn liggi fyrir í málinu hið snarasta. „Stjórnin tilkynnti okkur í dag að þau væru komin hugsanlega með fjármögnun, þau enduðu daginn á að segja að það væri komin fjármögnun,“ segir Jörundur sem að öðru leyti kveðst ekki vita hvert framhaldið verði að svo stöddu.  

Að sögn Böðvars Bjarka er einhugur innar stjórnar skólans um hvernig tekið skuli á málinu og nú liggi fyrir að skólinn fái fyrirgreiðslu svo sé unnt að halda rekstrinum áfram. „Skólinn verður rekinn réttu megin við núllið á þessu ári og hlutir bara í þokkalegu standi,“ segir Böðvar Bjarki að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert