Verður betri þjónusta fyrir ríka fólkið?

Logi Már Einarsson, formaður Samfylkingarinnar.
Logi Már Einarsson, formaður Samfylkingarinnar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, sagði á Alþingi í dag að fjármálaáætlun sem lægi fyrir þinginu neyði opinberu sjúkrahúsin til að draga saman seglin. Á sama tíma sé óljóst með hvaða hætti heilbrigðisþjónusta í landinu þróist.

Hann sagði að við gætum átt von á því að hér þróist tvöfalt kerfi, gegn vilja almennings. „Annars vegar þar sem allur þorri almennings notar hið vanfjármagnaða opinbera kerfi og svo hitt, einkarekið kerfi sem að megninu til verður greitt af almannafé en fólk getur svo ef það vill og á peninga greitt aukalega og sótt sér þjónustu,“ sagði Logi.

Hann benti á að Oddný Harðardóttir hefur lagt fram frumvarp sem tryggir aðkomu Alþingis að ákvörðunum um frekari einkarekstur og einkavæðingu. Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögum um sjúkratryggingar er varða samninga um heilbrigðisþjónustu.

Tilgangur frumvarpsins er augljós: Að ráðherra hafi skýrt umboð lýðræðislega kjörinna fulltrúa þjóðarinnar hverju sinni áður en hann gengur til samnings við einkaaðila um rekstur mikilvægra grunnstoða heilbrigðiskerfisins. Í dag getur hann ráðið þessu dálítið sjálfur,“ sagði Logi og spurði Óttarr Proppé heilbrigðisráðherra hvort hann styðji markmið frumvarpsins.

Ég er meðvitaður um tillögu Oddnýjar Harðardóttur og held að að einhverju leyti sé rétt hugsun þar á bak við. Útfærslan má samt kannski ekki koma inn í að Alþingi þurfi að taka ákvörðun um samninga við hvern einasta tannlækni, þannig að við þurfum að útfæra hvernig við viljum gera þetta,“ sagði Óttarr.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert