Beitti sambýliskonu sína líkamlegu ofbeldi

Maðurinn er talinn hafa kýlt konuna ítrekað í eyrað og …
Maðurinn er talinn hafa kýlt konuna ítrekað í eyrað og þrengt peysu að hálsi hennar þannig að för voru greinileg á eftir. mbl.is/G.Rúnar

Hæstiréttur staðfesti í dag sex mánaða nálgunarbann Héraðsdóms Reykjavíkur yfir karlmanni vegna ofbeldis sem hann er talinn hafa beitt sambýliskonu sína, m.a. með því að kýla hana ítrekað í eyrað og þrengja peysu að hálsi konunnar þannig að för voru greinileg á eftir. Lögregla hafði áður í tvígang synjað nálgunarbannsbeiðni konunnar.

Maðurinn og konan áttu í ofbeldisfullu sambandi, en í lok síðasta mánaðar krafðist Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu þess að manninum yrði gert að sæta nálgunarbanni í 6 mánuði.

Í greinargerð lögreglustjóra kemur fram að maðurinn sé grunaður um að hafa beitt konuna ofbeldi á heimili sínu. Er hann grunaður um að hafa komið aftan að konunni og gripið í peysu hennar þannig að hún féll á gólfið. Þar á hann að hafa haldið henni niðri og kýlt hana 4-5 sinnum í sitthvort eyrað. Þá er maðurinn  grunaður um að hafa gripið í hálsmál peysu konunnar og að hafa þrengt peysunni að hálsi hennar þannig að för voru sýnileg á hálsinum.

Konan náði að komast út úr íbúðinni og ók á brott. Hún hafði síðan samband við lögreglu fljótlega eftir að hún komst að því að maðurinn var að elta hana.  Maðurinn sýndi af sér mikla mótspyrnu er hann var handtekinn er hann reyndi að nálgast konuna aftur og þurfti lögregla m.a. að beita varnarúða til að yfirbuga hann.  

Næsta dag lagði konan fram beiðni um nálgunarbann, en fór nokkru síðar fram á að beiðnin yrði felld niður vegna ótta við afleiðingar þess að halda nálgunarbannsbeiðninni til streitu. Lögreglustjóri tók þá málið til meðferðar að eigin frumkvæði, m.a. á grundvelli fyrri brota. En lögregla hafnaði í tvígang í fyrra beiðnum konunnar um nálgunarbann. Í málaskrá lögreglu er að finna nokkrar tilkynningar vegna aðkomu lögreglu og félagsmálayfirvalda að málum parsins.

Í þau fyrri skipti sem konan fór fram á nálgunarbann greindi hún m.a. frá því að maðurinn hefði ráðist á sig þannig að hún hafi lent með höfuðið á spegli í forstofu íbúðarinnar, hann hafi lagt hníf að hálsi sínum og þá á hann að hafa dregið hana eftir gólfum íbúðarinnar á hárinu, sparkað í læri hennar og tekið hana kverkataki.

Telur lögreglustjóri því rökstuddan grun á að maðurinn hafi beitt konuna líkamlegu ofbeldi og að hætta sé á að hann geri slíkt aftur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert