Elsti lögreglubíllinn er frá 1995

„Svarta María“ lögreglunnar í Eyjum er frá 1995.
„Svarta María“ lögreglunnar í Eyjum er frá 1995. mbl.is/Óskar Pétur Friðriksson

Elsti lögreglubíll landsins er „Svarta María“ í Vestmannaeyjum, sem raunar er hvítur Ford Econoline. Hann var skráður 1995 og var hjá Lögregluskólanum áður en hann kom til Eyja nokkurra ára gamall og lítið ekinn, að sögn Jóhannesar Ólafssonar yfirlögregluþjóns.

„Hann er í ágætisstandi. Það þarf aðeins að fara að huga að boddíinu en kramið er fínt,“ sagði Jóhannes. Búið er að aka bílnum rúmlega 142.500 km. Jóhannes sagði að bíllinn væri notaður sparlega nú orðið.

Mest ekni bíllinn fer á safn

Auk „Svörtu Maríu“ er lögreglan í Eyjum með Hyundai Santa Fe, árgerð 2011. Embættið lagði inn beiðni um að fá nýjan bíl og á von á að fá óskina uppfyllta á þessu ári. Jóhannes sagði að þeir bíði spenntir eftir því að fá nýja lögreglubílinn.

Mest ekni lögreglubíll landsins er Volvo S80 af árgerð 2003, ekinn yfir 545.000 km. Hann kom nýr til lögreglunnar á Húsavík en fór síðan í þjónustu lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Nú er hann á lögreglustöðinni í Hafnarfirði og er í toppstandi, miðað við notkun. Bíllinn er notaður til að fara í skemmri eftirlitsferðir einu sinni á dag. „Það er búið að ákveða að þessi bíll fari á safn,“ sagði Agnar Hannesson, rekstrar- og þjónustustjóri á bílamiðstöð ríkislögreglustjórans.

Lögreglufélag Reykjavíkur hefur stofnað lögregluminjasafn og safnað talsverðu af gripum. Næsta skref er að finna húsnæði og setja upp sýningu, að sögn Guðmundar Inga Rúnarssonar, fyrrverandi formanns félagsins. „Við höfum safnað talsverðu af munum. Þar á meðal eru gamalt Harley-Davidson-lögreglumótorhjól og Volvo 240-lögreglubíll,“ sagði Guðmundur. Safnið á marga fleiri gripi og eru sumir þeirra til sýnis á lögreglustöðvum. Á göngum lögreglustöðvarinnar við Hverfisgötu eru t.d. sýningarskápar þar sem sjá má gömul varnartæki lögreglumanna, áfengismæla, hjálma, talstöðvar, lögreglubúninga og ýmislegt fleira. gudni@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert